Háskóli Íslands

Árið 2015

3. desember 2015: Stýring vaxtaáhættu á íslenska verðtryggða vaxtamarkaðnum

Hersir Sigurgeirsson er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

 Eitt af sígildum viðfangsefnum fjármála er að setja saman viðeigandi safn verðbréfa til að mæta tiltekinni skuldbindingu. Fisher og Weil sýndu árið 1971 að ef skuldbindingin er þekkt eingreiðsla þá dugir safn ríkisskuldabréfa með sama meðaltíma (duration) og skuldbindingin, að því gefnu að vaxtarófið hliðrist í heild upp eða niður.  Bierwag og Kaufman (1977) sýndu svo að ef skuldbindingin samanstendur af þekktum greiðslum á fleiri en einum tímapunkti þá dugir að auki að greiðsluflæði skuldabréfasafnsins sé dreifðara en greiðsluflæði skuldbindingarinnar, aftur að gefinni jafnri hliðrun vaxtarófsins. Rannsóknir sýna hins vegar að vaxtaróf hliðrast nánast aldrei jafnt við vaxtabreytingar svo ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að slaka á þeirri forsendu. Barber (1999) skilgreindi sem dæmi útvíkkun á meðaltíma í því tilviki að breyting á lögun vaxtarófsins við vaxtabreytingar er þekkt.

Höfundur hefur áður, ásamt Daða Kristjánssyni, sýnt að íslenska verðtryggða vaxtarófið hliðrast almennt ekki jafnt við vaxtabreytingar svo hin klassíska nálgun með meðaltíma er ekki endilega besta nálgunin. Í erindinu er annars vegar farið yfir frumniðurstöður rannsóknar á hvaða áhrif þetta hefur á stýringu vaxtaáhættu á íslenska markaðnum og með hvaða hætti á að nálgast þá stýringu og hins vegar fyrirhugaðar frekari rannsóknir á efninu.

 

 26. nóvember 2015: Líkamleg tjáning sem hluti af hrífandi forystu

Árelía Eydís Guðmundsdóttir er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

 Kenningin um hrífandi forystu á rætur sínar að rekja til skrifa Max Webers (1947) en hún hefur öðlast nýtt líf á undanförnum áratugum, sérstaklega í kenningum um umbreytingaforystu. Ein af stoðum kenningar um  hrífandi forystu er hæfni leiðtoga til að kveikja í fylgjendum neista til athafna oft í gegnum sterka framtíðarsýn. Í samtíma umræðu um hrífandi forystu er oft tekið fram að fylgjendur séu líklegri til að sækjast eftir hrífandi leiðtogum þegar mikil streita eða óvissa er í ytra umhverfi. Sameiginlegt er því þeim sem um hrífandi forystu skrifa að þeir leggja áherslu á að þeir sem séu hrífandi leiðtogar hafi mikil áhrif á fylgjendur með liprum samskiptum. Á málstofunni var farið yfir rannsókn á þeim aðferðum sem Jón Gnarr beitti sem leiðtogi Besta flokksins og Reykjavíkurborgar. Tekin voru ítarviðtöl og þau greind í framhaldinu og kóðuð samkvæmt eigindlegri aðferðafræði. Því er ekki hægt að alhæfa um útkomu rannsóknarinnar en niðurstöður benda til þess að þekking og reynsla Jóns Gnarr sem uppistandari og leikari hafi haft mikið að segja um árangur hans. Þá er bæði átt við kosningabaráttuna sjálfa en líka meðan hann gegndi embætti.  

 

24. september 2015: Rannsókn á millistjórnendum í opinberri þjónustustarfsemi með áherslu á mannauðsstjórnun

Inga Jóna Jónsdóttir er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

 Kynnt var rannsóknarverkefni sem hófst sumarið 2014 með kerfisbundinni greiningu á rannsóknartengdum skrifum um millistjórnendur (line managers)  og HRM. Sagt var frá helstu niðurstöðum um hvað er vitað og hvað er lítið eða minna vitað um millistjórnendur og þá sérstaklega með tilliti til stjórnunar starfsmannamála. Rannsóknin er áformuð sem langtíma rannsókn í nokkrum stigum eða hlutum. Þá var sagt frá rannsóknarsniði þess stigs sem aðallega hófst sumarið 2015 og er viðtalsrannsókn. Rætt var um áformað framhald og næstu stig í rannsókninni. 

 

7. febrúar 2015: Stefnumiðuð sýn, úthýsing og rekstrarárangur

Ingi Rúnar Eðvarðsson er prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

 Markmið málstofunnar var að kynna niðurstöður könnunar sem framkvæmd var árið 2013. Einkum var litið til þeirra fyrirtækja sem höfðu mótað stefnu um úthýsingu og árangur þeirra af úthýsingunni. Rannsóknaraðferð byggði á blöndu af net- og símakönnun. Þátttökufyrirtæki voru þjónustufyrirtæki af öllu landinu og af mismunandi stærð. Svörun var 55% (212 fyrirtæki). Í málstofunni var sjónum einkum beint að þeim fyrirtækjum sem hafa aukið veltu sína meira en 3% á ári síðustu þrjú ár. Hvað einkennir þessi fyrirtæki í samanburði við önnur fyrirtæki og hvað einkennir úthýsingu í slíkum fyrirtækjum?

 

 

5. febrúar 2015: Women in Microfinance Institutions: The Road to Poverty Reduction and Gender Equality?

Sigurður Guðjónsson er doktorsnemi við Bologna háskólann á Ítalíu

Á málstoufunni var kynnt grein sem fjallar um málefni sem viðkomaörlána/smálanafyrirtækjum(e. microfinance institutions).Kannað er hvort konur við stjórnun(e. management team)og í stjórnum (e. boards)hafa áhrif á félagsleganárangur(e. social performance).Þessifélagslegi árangur gengur undir nafninu“outreach”í örlána/smálána fyrirtækjum og er notaður til þess að sjá hversu vel fyrirtækin ná til þeirra fátæku,til þess að veita þeim lán og þannig koma þeim úr vítahring fátæktar.Það gagnasett sem notað er í þessari rannsókn inniheldur 226 örlána/smálana fyrirtæki staðsett í “þróunarheiminum” þ.e. í löndum Asíu, Suður-Ameríku og Afríku.Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að konur við stjórn örlána/smálána fyrirtækja virðast leiða til betri félagslegs árangurs á meðan konur í stjórnum þessara fyrirtækja hafa ekki áhrif á þennan félagslega árangur.

 

22. janúar 2015: Rannsókn á nýbreytni í starfsemi seðlabanka - Í ljósi yfirstandandi breytinga á alþjóðlega fjármálakerfinu.

Ásgeir Brynjar Torfason er lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Á málstofunni var kynnt rannsókn á mælingu lausafjár út frá nýrri sýn á hlutverk seðlabanka og rekstur þeirra í tengslum við umbætur á alþjóðlega fjármálakerfinu. Markmiðið er að skoða áhrif mismunandi mælinga á stöðu lausafjár og gjaldþol fjármálastofnana, í tengslum við umbætur fjármálakerfisins, nýtt reglugerðaumhverfi og hið breytta hlutverk seðlabanka.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is