Háskóli Íslands

Árið 2017

17. nóvember 2017: Rannsóknarverkefni um samspil reikningsskila, endurskoðunar og fjármálamakaða

Ásgeir Brynjar Torfason - Sigurjón Gerisson

Á málstofunni voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem staðið hefur síðan í lok árs 2015 þar sem viðfangsefnið hefur verið hvernig skilgreina eigi gæði reikningsskila og forsendur gæða endurskoðunar í ljósi nýrra alþjóðlegra viðmiða sem byggja á greiningu á aðdraganda fjármálakreppunnar og orsökum hennar. Markmið verkefnisins var að byggja upp hérlendis grunn að fræðastarfi um samspil reikningsskila, endurskoðunar og fjármálamarkaða og vinna að þróun fræðslu og kennsluefnis á þessum sviðum í tengslum við innleiðingu nýrra viðmiða í tilskipunum ESB.

 

27. október 2017: Viðburðir og samfélög: Viðhorf heimamanna til Landsmóts hestamanna 2016

Ingibjörg Sigurðardóttir er lektor við Háskólann á Hólum

Mikill fjöldi viðburða er haldinn á Íslandi ár hvert. Þrátt fyrir það hefur lítið verið um rannsóknir hérlendis á sviði viðburðastjórnunar. Áhrif viðburða eru fjölþætt og geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Má þar nefna efnahagsleg-, samfélagsleg- og umhverfisleg áhrif ásamt áhrifum á ímynd staða. Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt var rýnt í einn viðburð frá fjölmörgum sjónarhornum. Alls unnu 13 aðilar frá fjórum löndum að rannsókninni. Einn þáttur rannsóknarinnar fjallaði um  viðhorf heimamanna til viðburðarins og er hann kynntur í þessum fyrirlestri.

Viðburðurinn sem um ræðir er Landsmót hestamanna en það er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er reglulega á Íslandi. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1950, fyrst á fjögurra ára fresti en í seinni tíð annað hvert ár. Staðsetning mótsins er mismunandi en árið 2016 var það haldið á Hólum í Hjaltadal. Viðburðurinn var nokkuð stór samanborið við samfélagið, en um 4000 manna samfélag tók á móti um 8000 manns og 800 hrossum í eina viku.

Rafræn spurningakönnun var lögð fyrir íbúa í Skagafirði í kjölfar mótsins árið 2016. Svarhlutfall var um 47%. Niðurstöður benda til að heimamenn hafi almennt verið ánægðir með viðburðinn þrátt fyrir hið mikla umfang hans. Svarendur telja að samfélagið í Skagafirði hafi á ýmsan hátt haft hag af því að halda viðburðinn. Flestir svarendur tengdust viðburðinum með einum eða öðrum hætti. Þeir höfðu ýmist tekið á móti hestum eða fólki meðan á mótinu stóð, selt vöru eða þjónustu, unnið að undirbúningi mótsins og/eða sótt viðburðinn sem starfsmenn eða gestir. Þrátt fyrir þetta voru aðeins 7% svarenda með hestatengdan rekstur og um 33% nýttu frítíma sinn að jafnaði ekki til hestamennsku. 

 

12. maí 2017: Stjórnskipulag í sveiflukenndu umhverfi

Ásta Dís Óladóttir er lektor við Háskóla Íslands

Stjórnskipulag hefur mikla þýðingu varðandi árangur fyrirtækja. Það hefur m.a. áhrif á þætti á borð við að upplýsingar berist hratt um fyrirtækið ,að ákvarðanir dragist ekki á langinn og að aðgerðir séu samhæfðar. Allt þetta skiptir miklu máli ,sérstaklega ef umhverfið einkennist af óvissu. Niðurstöður verða kynntar á stjórnskipulagi íslenskra fyrirtækja og bornar saman kannanir frá árinu 2007 og árið 2016, þar sem skoðað er hvort efnahags sveiflur hafi haft áhrif á skipulagsform viðkomandi fyrirtækja. Þá verður greint frá því hvað stjórnendur geta gert og hafa gert þegar miklar sveiflur eru í umhverfi þeirra.
 
 
12. maí 2017: Hvers virði er að vera verkjalaus?

Þórhildur Ólafsdóttir er nýdoktor við Háskóla Íslands

Fæstir geta svarað þeirri spurningu í fljótu bragði. Í þessari rannsókn er velferðaraðferðin notuð til þess að meta virði þess að vera verkjalaus. Einn helsti kostur þessarar aðferðar, umfram aðrar leiðir til þess að meta virði gæða sem ekki hafa markaðsvirði, er að einstaklingar þurfa ekki að svara svo flókinni spurningu. Peningalegt virði heilsu er hægt að meta fyrir ýmis konar heilsubresti með upplýsingum úr fyrirliggjandi spurningakönnunum. Þannig er hægt að áætla þær viðbótartekjur sem þyrfti að greiða einstaklingi til þess að vega upp a móti því velferðartapi sem verkir hafa í för með sér. Upplýsingar um virði heilsu gagnast við ýmis konar ákvarðanatökur, t.d. stefnumótun, forgangsröðun og í skaðabótamálum. Á málstofunni verður sagt nánar frá velferðaraðferðinni, þeim bandarísku gögnum sem notuð eru í rannsókninni og drög að niðurstöðum kynnt.

 

10. mars 2017: Network Relations of Nordic Managers Exporting to Asia

Bryndís Ólafsdóttir er doktorsnemi við Háskóla Íslands

The Nordic business environment is restricted by a small domestic market so many Nordic firms seek to increase their customer base by strategically expanding to the global market. The purpose of this empirical study is to examine the entry-mode internationalization of Nordic SMEs into Japan and South-Korea, exploring how managers of export companies establish and build relationships with potential business partners and intermediaries. The essence of the PhD research are exploratory interviews with managers and intermediaries in export companies in Iceland, Denmark and Norway regarding their network relations. The emphasis is on three main topics that are inadequately presented in the literature: First, how Nordic managers in small to medium-sized enterprises (SMEs) experience the process of finding business partners in a distant market. Second, the supportive role of trade intermediaries and their network relations with other intermediaries and the authorities. Finally the third topic relates to how managers in SMEs build trust and legitimacy at home and in the host country highlighting accessibility into the institutional, political environment during internationalization. The theoretical basis is derived from entry-mode research, but essentially from three main sources: Uppsala Internationalization model, institutional theory and the industrial network approach.
The purpose of this seminar is to briefly introduce the doctoral research proposal, focusing on the research interest, methodology and the status of the research. This is a “work in progress.”

 

24. febrúar 2017: Staða Label Rouge á franska fiskmarkaðinum

Arnar Már Búason er doktorsnemi við Norwegian University of Life Sciences

Á málstofunni var kynnt matsaðferð sveigjanlegs fátíðnikaupa líkans, sem samræmist fræðilegri framsetningu rekstrarhagfræðinnar. Tíðkast hefur að notast við líkön sem taka einungis tillits til þess hvort neytendur kaupi vöru eða ekki en þetta líkan tekur einnig tillit til tíðni kaupa neytenda. Líkanið er notað til að rannsaka neyslu á laxi sem seldur er undir merkinu Label Rouge á frönskum markaði. Notast er við margvíð þversniðsgögn af frönskum neytendum og sýna niðurstöður rannsóknarinnar að viðmót og tryggð neytenda sem kaupa ferskan lax undir merkinu Label Rouge eru marktækt frábrugðin þeirra sem kaupa ómerktan ferskan lax. Benda niðurstöðurnar því til þess að tekist hafi að aðgreina vörur með merkinu Label Rouge frá öðrum vörum með tilætluðum hætti.

 

10. febrúar 2017: Hvernig má stuðla að jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu?

Snjólfur Ólafsson er prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Á liðnum áratugum hefur trekk í trekk verið bent á að launamunur kynjanna sé mikill og ríkur vilji hefur verið hjá mörgum fyrir því að minnka þann mun, jafnvel eyða honum alveg. Hægt hefur gengið að ná því markmiði. Staða kynjanna í atvinnulífinu er ójöfn að ýmsu öðru leyti og erfitt virðist að breyta því. Ýmslegt hefur verið gert, svo sem lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja og fleira er á döfinni, t.d. lög um jafnlaunavottun. Þetta er ástæða þess að rannsókn er hafin á því hvernig sé hægt að vinna að jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu.

Í þessu tilviki er ekki hægt að segja mikið með því að skoða bara fyrirliggjandi gögn og upplýsingar. Einnig er ljóst að engir örfáir einstaklingar viti svarið við spurningunni, meðal annars af því að samfélagið er mjög flókið og að sýn manna á það ólík.

Rannsóknarhópurinn vinnur að rannsókn á því hvernig sé hægt að vinna að jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu, m.a. varðandi launamun. Sem lið í þeirri rannsókn höldum við nokkra rýnifundi, með 4-8 þátttakendur á hverjum fundi. Markmiðið er að draga fram helstu markmið varðandi jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu, þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað til að svo verði og aðgerðir sem geta stuðlað að þeim breytingum, að áliti þeirra sem taka þátt í fundunum. Líklega verður á síðari stigum einnig tekið tillit til niðurstaðna annarra rannsókna.

Meginrannsóknarverfærið er svokallað tengslarit. (Þetta kallast “cognitive map” á ensku, en “cognitive map” er notað yfir margs konar rit, ekki bara tengslarit. “Influence diagram” er náskylt verkefæri.) Með tengslaritum eru dregin fram meginatriði og sýnd (meint) orsakasamband með örvum. Okkur vitanlega hefur þessi rannsóknaraðferð ekki verið notuð í rannsókn á þessu viðfangsefni, en hún hefur verið notuð í ýmsum rannsóknum.

Markmið rannsóknarinnar er að gefa skýra mynd að aðalatriðum málsins (hvað sé mögulegt að gera til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði) og samhengi þeirra. Bæði verða dregin fram atriði sem víðtæk samstaða er um og atriði sem skiptar skoðanir eru um.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is