Háskóli Íslands

Hersir Sigurgeirsson - Rannsóknamálstofa 3. desember

Hersir Sigurgeirsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, verður með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 3. desember kl. 11.35-12.35 í stofu 102 í Gimli. Yfirskrift erindisins er: Stýring vaxtaáhættu á íslenska verðtryggða vaxtamarkaðnum.
 
Eitt af sígildum viðfangsefnum fjármála er að setja saman viðeigandi safn verðbréfa til að mæta tiltekinni skuldbindingu. Fisher og Weil sýndu árið 1971 að ef skuldbindingin er þekkt eingreiðsla þá dugir safn ríkisskuldabréfa með sama meðaltíma (duration) og skuldbindingin, að því gefnu að vaxtarófið hliðrist í heild upp eða niður.  Bierwag og Kaufman (1977) sýndu svo að ef skuldbindingin samanstendur af þekktum greiðslum á fleiri en einum tímapunkti þá dugir að auki að greiðsluflæði skuldabréfasafnsins sé dreifðara en greiðsluflæði skuldbindingarinnar, aftur að gefinni jafnri hliðrun vaxtarófsins. Rannsóknir sýna hins vegar að vaxtaróf hliðrast nánast aldrei jafnt við vaxtabreytingar svo ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að slaka á þeirri forsendu. Barber (1999) skilgreindi sem dæmi útvíkkun á meðaltíma í því tilviki að breyting á lögun vaxtarófsins við vaxtabreytingar er þekkt. 
 
Höfundur hefur áður, ásamt Daða Kristjánssyni, sýnt að íslenska verðtryggða vaxtarófið hliðrast almennt ekki jafnt við vaxtabreytingar svo hin klassíska nálgun með meðaltíma er ekki endilega besta nálgunin. Í erindinu er annars vegar farið yfir frumniðurstöður rannsóknar á hvaða áhrif þetta hefur á stýringu vaxtaáhættu á íslenska markaðnum og með hvaða hætti á að nálgast þá stýringu og hins vegar fyrirhugaðar frekari rannsóknir á efninu.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is