Háskóli Íslands

Rannsóknamálstofa Viðskiptafræðistofnunar: Rannsókn á sjálfbærni íslensks landbúnaðar

Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, verður með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar föstudaginn 30. september kl. 11.35-12.35 í stofu 102 í Gimli. 

Á síðustu árum hefur höfundur unnið með öðrum að því að svara spurningunni: Hversu umhverfislega sjálfbært er Ísland? Fyrst var kannaður sá möguleiki að styðjast við umhverfisvísa til að bera Ísland saman við önnur lönd, en meginniðurstaðan var að slíkir umhverfisvísar eru gagnslitlir. Í framhaldinu var þróuð aðferðafræði sem byggist á safni af mælikvörðum sem til samans segja mikið um umhverfislega sjálfbærni landa, en slíkt safn þarf að þróa fyrir hvert land fyrir sig. Greining á Íslandi með þessari aðferð hefur verið gerð, en tölur geta samt aðeins gefið takmarkaða mynd. Þess vegna voru haldnir 8 rýnifundir vorið 2014, með samtals 42 einstaklingum, um þeirra sýn á umhverfislega sjálfbærni Íslands.

Niðurstöðurnar eru góður grunnur fyrir nánari skoðun á tilteknum þáttum umhverfislegrar sjálfbærni. Í málstofunni verður fyrst sagt stuttlega frá þessum rannsóknum, en síðan lýst fyrirhugaðri rannsókn um umhverfislegri sjálfbærni íslensks landbúnaðar. Þeir þættir sem verða líklega teknir fyrir í rannsókninni eru (1) Losun gróðurhúsalofttegunda, (2) Landnýting, m.a. gróðureyðing og framræst land, (3) Aðföng, m.a. orka og áburður, (4) Úrgangsmál og (5) Ferskvatn. Í málstofunni verður fjallað um ýmis álitamál, m.a. þessi: Á að fjalla um fiskeldi og ágang hrossa? Á að taka framræst votlendi fyrir og þá hvernig? Hvað um skógrækt og landgræðslu? Viljum við skoða hluta aðfangakeðjunnar, t.d. innflutning á tækjum, fóðri og áburði? Góður tími verður fyrir umræður um þessa rannsókn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is