Háskóli Íslands

Hversu stórt verður lífeyriskerfið? Rannsóknamálstofa Viðskiptafræðistofnunar 14. október

Hersir Sigurgeirsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, verður með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 14. október kl. 11.35-12.35 í stofu 102 í Gimli. Yfirskrift erindisins er: Hversu stórt verður lífeyriskerfið?

Íslenska lífeyriskerfið er byggt á þremur megin stoðum: Í fyrsta lagi almannatryggingakerfi sem greiðir lágmarkslífeyri, í öðru lagi samtryggingarkerfi með skylduaðild og í þriðja lagi valfrjálsum séreignasparnaði. Fyrsta stoð kerfisins er byggð á gegnumstreymi þar sem lífeyrisgreiðslur eru fjármagnaðar með samtíma skatttekjum ríkissjóðs en seinni tvær stoðirnar eru byggðar á sjóðsöfnun lífeyrissjóða. Sá hluti lífeyriskerfisins sem byggir á sjóðsöfnun er með þeim stærstu í heimi ef litið er til eigna lífeyrissjóðanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Í upphafi ársins 2015 námu eignir sjóðanna 147% af vergri landsframleiðslu og aðeins Holland var með stærra kerfi eða 159% af VLF.  Lífeyrissjóðirnir eru fyrir vikið orðnir mjög fyrirferðamiklir á íslenskum fjármálamarkaði. Þeir eiga til að mynda um 40-50% af skráðum íslenskum hlutafélögum og stóran hluta íslenskra ríkisskuldabréfa. Í ljósi mikils eignarhalds sjóðanna á skráðum fyrirtækjum geta þeir haft mikil áhrif á stjórnun þeirra en skiptar skoðanir eru á hvernig þeir eigi að beita sér sem hluthafar. Framreikningar á þróun kerfisins sýna að kerfið mun vaxa enn frekar á næstu árum og áratugum og að kerfið gæti jafnvel enn átt eftir að meira en tvöfaldast áður en jafnvægi er náð. Í erindinu er farið yfir yfirstandandi rannsókn á því hversu stórt lífeyriskerfi sem byggir á sjóðasöfnun getur orðið og hugsanleg áhrif kerfisins og stærðar þess á íslenskan fjármálamarkað.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is