Háskóli Íslands

Snjólfur Ólafsson verður með erindi á rannsóknamálstofu 10. febrúar

Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, verður með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 10. febrúar kl. 11.35-12.35 í stofu 102 í Gimli. Yfirskrift erindisins er: Hvernig má stuðla að jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu?

Á liðnum áratugum hefur trekk í trekk verið bent á að launamunur kynjanna sé mikill og ríkur vilji hefur verið hjá mörgum fyrir því að minnka þann mun, jafnvel eyða honum alveg. Hægt hefur gengið að ná því markmiði. Staða kynjanna í atvinnulífinu er ójöfn að ýmsu öðru leyti og erfitt virðist að breyta því. Ýmslegt hefur verið gert, svo sem lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja og fleira er á döfinni, t.d. lög um jafnlaunavottun. Þetta er ástæða þess að rannsókn er hafin á því hvernig sé hægt að vinna að jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu.

Í þessu tilviki er ekki hægt að segja mikið með því að skoða bara fyrirliggjandi gögn og upplýsingar. Einnig er ljóst að engir örfáir einstaklingar viti svarið við spurningunni, meðal annars af því að samfélagið er mjög flókið og að sýn manna á það ólík.

Rannsóknarhópurinn vinnur að rannsókn á því hvernig sé hægt að vinna að jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu, m.a. varðandi launamun. Sem lið í þeirri rannsókn höldum við nokkra rýnifundi, með 4-8 þátttakendur á hverjum fundi. Markmiðið er að draga fram helstu markmið varðandi jafnari stöðu kynjanna í atvinnulífinu, þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað til að svo verði og aðgerðir sem geta stuðlað að þeim breytingum, að áliti þeirra sem taka þátt í fundunum. Líklega verður á síðari stigum einnig tekið tillit til niðurstaðna annarra rannsókna.

Meginrannsóknarverfærið er svokallað tengslarit. (Þetta kallast “cognitive map” á ensku, en “cognitive map” er notað yfir margs konar rit, ekki bara tengslarit. “Influence diagram” er náskylt verkefæri.) Með tengslaritum eru dregin fram meginatriði og sýnd (meint) orsakasamband með örvum. Okkur vitanlega hefur þessi rannsóknaraðferð ekki verið notuð í rannsókn á þessu viðfangsefni, en hún hefur verið notuð í ýmsum rannsóknum.

Markmið rannsóknarinnar er að gefa skýra mynd að aðalatriðum málsins (hvað sé mögulegt að gera til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði) og samhengi þeirra. Bæði verða dregin fram atriði sem víðtæk samstaða er um og atriði sem skiptar skoðanir eru um.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is