Háskóli Íslands

27. október - Rannsóknamálstofa Viðburðir og samfélög: Viðhorf heimamanna til Landsmóts hestamanna 2016

Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, verður með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 27. október kl.11.35-12.35 í stofu 102 í Gimli.

Mikill fjöldi viðburða er haldinn á Íslandi ár hvert. Þrátt fyrir það hefur lítið verið um rannsóknir hérlendis á sviði viðburðastjórnunar. Áhrif viðburða eru fjölþætt og geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Má þar nefna efnahagsleg-, samfélagsleg- og umhverfisleg áhrif ásamt áhrifum á ímynd staða. Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt var rýnt í einn viðburð frá fjölmörgum sjónarhornum. Alls unnu 13 aðilar frá fjórum löndum að rannsókninni. Einn þáttur rannsóknarinnar fjallaði um  viðhorf heimamanna til viðburðarins og er hann kynntur í þessum fyrirlestri.

Viðburðurinn sem um ræðir er Landsmót hestamanna en það er einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er reglulega á Íslandi. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1950, fyrst á fjögurra ára fresti en í seinni tíð annað hvert ár. Staðsetning mótsins er mismunandi en árið 2016 var það haldið á Hólum í Hjaltadal. Viðburðurinn var nokkuð stór samanborið við samfélagið, en um 4000 manna samfélag tók á móti um 8000 manns og 800 hrossum í eina viku.

Rafræn spurningakönnun var lögð fyrir íbúa í Skagafirði í kjölfar mótsins árið 2016. Svarhlutfall var um 47%. Niðurstöður benda til að heimamenn hafi almennt verið ánægðir með viðburðinn þrátt fyrir hið mikla umfang hans. Svarendur telja að samfélagið í Skagafirði hafi á ýmsan hátt haft hag af því að halda viðburðinn. Flestir svarendur tengdust viðburðinum með einum eða öðrum hætti. Þeir höfðu ýmist tekið á móti hestum eða fólki meðan á mótinu stóð, selt vöru eða þjónustu, unnið að undirbúningi mótsins og/eða sótt viðburðinn sem starfsmenn eða gestir. Þrátt fyrir þetta voru aðeins 7% svarenda með hestatengdan rekstur og um 33% nýttu frítíma sinn að jafnaði ekki til hestamennsku. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is