Háskóli Íslands

Rannsóknarmiðstöð um verkefnastjórnun stofnuð hjá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands

Rannsóknarmiðstöð um verkefnastjórnun (Institute for Project Management, IPM) var nýlega stofnuð við Háskóla Íslands og var fyrsti stjórnarfundur haldinn miðvikudaginn 31. október síðastliðinn.

Formaður stjórnar er Dr. Inga Minelgaite, dósent við Viðskiptafræðideild, en hún er umsjónarmaður meistaranáms í verkefnastjórnun við Viðskiptafræðideild HÍ. Aðrir í stjórn eru Dr. Árelía E. Guðmundsdóttir, dósent við Viðskiptafræðideild og Dr. Snjólfur Ólafsson, sem tók þátt í að þróa MS nám í verkefnastjórnun við Viðskiptafræðideild. Síðast en ekki síst, Dr. Ralf Müller, prófessor í verkefnastjórnun við BI viðskiptaháskólann í Osló en hann er leiðandi fræðimaður á sviði verkefnastjórnunar. Ralf tengist mörgum háskólum, m.a. University of Quebec, Dalian University of Technology in China, ISM University og gegnir hann ýmsum fræðilegum stöðum. Hann er aðalritstjóri Project Management Journal og hefur hlotið verðlaun frá mörgum af helstu félagasamtökum um verkefnastjórnun á heimsvísu. Áður en hann hóf sinn akademíska feril starfaði hann sem verkefnastjóri um 25 ára skeið, víða um heim. Fljótlega mun bætast við stjórnina fulltrúi fyrirtækis á Íslandi.

Tilgangur stofnunarinnar er margvíslegur en megin markmiðið er að efla rannsóknir og samstarf milli fræðimanna, fyrirtækja og stofnana á sviði verkefnastjórnunar. IPM er vettvangur fyrir rannsóknir og er markmiðið að stuðla að aukinni fagmennsku og hæfni á sviði verkefnisstjórnunar á Íslandi. IPM mun gefa nemendum í MS í verkefnastjórnun tækifæri til að tengjast fyrirtækjum í atvinulífinu, m.a. með starfsnámi. Fyrir fyrirtæki getur IPM boðið upp á samstarf í rannsóknum og fræðslu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is