Háskóli Íslands

Haust 2014

11. desember 2014: Straumar og stefnur í leiðtogafræðum 

Árelía Eydís Guðmundsdóttir er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Á þessari málstofu var fjallað um nýja strauma og stefnur í leiðtogafræðum almennt. Farið yfir kenningarlega umfjöllun um samhyggð, tilfiningarlæsi og almenna vellíðan á vinnustað. Kynnt var fyrirhuguð rannsókn á íslensku fyrirtæki í hátækniiðnaði sem hefur farið nýjar/aðrar leiðir í stjórnun í samræmi við nýjar kenningar. Rannsóknin beinir sjónum sínum að árangri á nýjum aðferðum, eins og auknu tilfinningarlæsi og samhyggð, og líðan starfsmanna.  

 

2. október 2014: Eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði 

Hersir Sigurgeirsson er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Nokkuð hefur verið rætt og ritað undanfarið um eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði, sér í lagi hversu stór hluti hans er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Kauphöllin birtir reglulega lista yfir 20 stærstu hluthafa hvers skráðs hlutafélags og séu upplýsingar úr þeim teknar saman er niðurstaðan sú að beint eignarhald lífeyrissjóðanna er um 30%. En það eru aðeins stærstu lífeyrissjóðirnir sem rata á lista yfir 20 stærstu hluthafa hvers félags, einhverjir lífeyrissjóðir eiga hlutdeild í verðbréfasjóðum sem fjárfesta í skráðum hlutabréfum og að auki eiga sumir lífeyrissjóðir hluti í hlutafélögum sem eiga, beint eða óbeint, hlutdeild í skráðum hlutafélögum. Það er því ljóst að beint eignarhald lífeyrissjóðanna er eitthvað hærra en 30% og sé tillit tekið til óbeins eignarhalds þeirra í gegnum verðbréfasjóði og hlutafélög þá er hlutdeild þeirra enn meiri.

Í erindinu var farið yfir helstu niðurstöður úr yfirstandandi rannsókn á eignarhaldi á íslenskum hlutabréfamarkaði. Eingöngu er byggt á upplýsingum úr opinberum gögnum, svo sem ársreikningum skráðra og óskráðra hlutafélaga, einkahlutafélaga, lífeyrissjóða og verðbréfasjóða og yfirlitum verðbréfasjóða um helstu eignir. Lagt er mat á beint og óbeint eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði og sér í lagi hversu stór hluti markaðarins og einstakra félaga er í beinni eða óbeinni eigu lífeyrissjóða, erlendra aðila, slitabúa, ríkisins, fjársterkra einstaklinga og almennings.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is