Háskóli Íslands

Haustmisseri 2011

14. desember 2011: Tímamarkaðar skipulagsheildir.

Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræði- stofnunar miðvikudaginn 14. desember síðastliðinn.

Á málstofunni verður farið yfir kenningar um tímamarkaðar skipulagsheildir og hvernig megi hugsa um stefnu í tengslum við þær. Vikið er að rannsóknum sem gerðar hafa verið í Svíþjóð um þetta efni, en þar eru frumkvöðlarnir að kenningunni um tímamarkaðar skipulagsheildir (temporary organizations). Sérstaklega er horft á þessar kenningar í samhengi við verkefnastjórnunarkenningar. Um er ræða framsetningu sem gefur yfirlit yfir fræðin um tímamarkaðar skipulagsheildir og hvernig megi tengja þessar skipulagsheildir við stefnu hugtakið. Spurt er út í þróun þessara kenninga og hvaða sjónarhorn á stefnu fellur best að skipulagsheild eins og þessari.

 

7. desember 2011: Samvinna um nýjar lausnir: Um Change Laboratory aðferðafærðina sem tengir saman rannsakendur og þá sem starfa á vettvangi að nýsköpun.

Inga Jóna Jónsdóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræði- stofnunar miðvikudaginn 7. desember síðastliðinn.

Á ráðstefnu um nýsköpun í opinberri þjónustu þann 3. nóvember sl. kom skýrt fram mikilvægi þess að styðja þurfi við og skapa aðstæður fyrir nýsköpun í opinberum rekstri. Með nýsköpun er hér vísað til nýrra lausna eða þá endurbóta á eldri lausnum sem fela í sér þýðingarmiklar breytingar eða verulegar endurbætur. 

Á málstofunni var kynnt stuttlega íhlutunaraðferð (intervention methodology) í umbreytinga- og þróunarstarfi  í tengslum við nýjar lausnir - nýsköpun - sem nefnist Change Laboratory (CL). Íhlutunaraðferð gengur út frá samvinnu rannsakenda/háskólafólks og aðila atvinnulífsins í umbreytingarstarfi. Skoðuð voru dæmi um  rannsóknarverkefni  þar sem Change Laboratory aðferðafræðin er nýtt. Tilgangurinn er að undirbúa notkun CL í rannsókn.

 

30. nóvember 2011: Mælingar á ímynd landa-Umræða um nýtt rannsóknar-verkefni.

Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 30. nóvember 2011.

Ímynd á tilteknu landi getur haft áhrif á ýmsa þætti sem skipta sköpum fyrir velgengni einstaklinga þess lands. Töluvert hefur verið rætt um áhrif ímyndar á möguleika ferðaþjónustunnar, en áhrif ímyndar snúa einnig t.d. að velgengni útflutningsvara og möguleikum á erlendum fjárfestingum.

Sumarið 2011 var farið af stað með nýtt rannsóknarverkefni þar sem markmiðið er að vinna að mælingum á ímynd Íslands. Á málstofunni var farið yfir tilurð verkefnisins, rætt um þá þekkingu sem til staðar er á fræðasviðinu og greint var frá þeim aðferðum sem notaðar hafa verið í fyrri rannsóknum við mælingar á ímynd landa. Jafnframt verður farið yfir þá aðferðafræði sem rannsakendur hyggjast beita í rannsóknarverkefninu. Vonir standa til þess að á málstofunni skapist góðar og gagnrýnar umræður um aðferðafræðina, sem geta leitt til jákvæðs framgangs rannsóknarverkefnisins.

 

23. nóvember 2011: Hver er arðsemi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja?

Friðrik Eysteinsson, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar miðvikudaginn 23. nóvember.

Fjöldi erlendra ferðamanna hefur aukist ár frá ári og ferðaþjónustan er nú ein af mikilvægustu útflutningsgreinum þjóðarinnar. En hver er arðsemi fyrirtækja í greininni?

Ákveðið var að beina athyglinni að árunum 2004 til 2007 en þau einkenndust af miklum uppgangi í íslensku efnahagslífi. Kennitölurnar arðsemi eigin fjár, arðsemi eigna, hagnaðarhlutfall og veltuhraði eigna voru reiknaðar út fyrir helstu fyrirtækjahópa innan ferðaþjónustunnar. Við útreikningana var notast við upplýsingar sem Hagstofan hefur unnið upp úr ársreikningum fyrirtækja.

Niðurstöðurnar benda til þess að arðsemi helstu fyrirtækjahópa innan ferðaþjónustunnar hafi verið lítil á uppgangsárunum 2004-2007 og að hún hafi verið mun minni en arðsemi annarra fyrirtækja.

 

16. nóvember 2011: Er færni í upplýsingatækni mikilvæg fyrir fleiri en "tölvunörda"?

Gunnar Óskarsson, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar miðvikudaginn 16. nóvember.

Nýting upplýsingatækni eykur getu fyrirtækja til að miðla og vinna úr upplýsingum, nýta þekkingu í ólíkum starfstöðvum og lyfta þannig færni fyrirtækisins til að leysa vandamál á nýtt stig sem að öðrum kosti væri ekki mögulegt. Árangursrík nýting á upplýsingatækni gerir ekki einungis kröfu um að fyrirtækið búi yfir góðri tækni og þekkingu á tæknilausnunum sjálfum, heldur er árangurinn ekki síður háður vinnuferlum sem eru inngreyptir í skipulagsheildina og samfélagslega tæknilegu heildarkerfi sem stuðlar að því að hún sé nýtt á markvissan hátt og í samræmi við þarfir fyrirtækisins. Gunnar mun kynna drög að rannsókn sem ætlað er að kanna áhrif þess að aðrir stjórnendur hafi þekkingu á þeim möguleikum sem upplýsingatæknin býður uppá og samvinnu þeirra og stjórnenda í upplýsingatæknideildum fyrirtækja.

Hér má nálgast glærur Gunnars frá málstofunni.

 

2. nóvember 2011: Samanburður á verkföllum á opinberum og almennum vinnumarkaði

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 9. nóvember síðastliðinn.

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á verkföll á íslenskum vinnumarkaði frá árinu 1977 (þegar opinberir starfsmenn fengu verkfallsrétt) til ársins 2009. Borin er saman verkfallstíðni starfsmanna á opinberum vinnumarkaði og almennum vinnumarkaði. Reynt er að leita skýringa út frá kenningum vinnumarkaðsfræðinnar á þessum mun. Rannsóknin byggir á gögnum Kjararannsóknarnefndar og seinna Hagstofunnar sem heldur skrá yfir verkföll á íslenskum vinnumarkaði. Í þessum  gögnum er heildarfjöldi vinnustöðvana skráður ásamt dögum með vinnustöðvunum og fjölda þátttakenda í þeim. Fjöldi vinnustöðvunardaga er síðan greint í þrennt 1. Landverkafólk 2. Farmenn og fiskimenn. 3. Aðrir. Undir þessum lið, Aðrir, flokkast verkföll opinberra starfsmanna þ.e. starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Á þessu tímabili hafa verkföll opinberra starfsmanna verið mun algengari.

 

2. nóvember 2011: Does one-size-fits-all fit anyone. Efficiency in copyright for primary creators

Kristín Atladóttir, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 2. nóvember síðastliðinn.

Í erindinu var kynnt grein sem byggir á rannsókn á afstöðu og skilningi listamanna á höfundarrétti. Höfundarréttarkerfið er skoðað út frá upphaflegum tilgangi þess og athugað hvort kerfið nú þjóni þeim tilgangi og mæti þörfum frumskapenda. Í ljós kemur misræmi sem veldur óhagkvæmni. Í framhaldi var kynnt tillaga um breytingar sem miða að því að aðlaga kerfið ólíkum þörfum hagsmunaaðila og takmarka neikvæð bein og óbein áhrif.

 

26. október 2011: Þekkingarstjórnun og samkeppnishæfni fyrirtækja

Ingi Rúnar Eðvaldsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 26. október síðastliðinn.

Markmið rannsóknarmálstofunnar var að greina áhrif þekkingarstjórnunar á verðmætasköpun í fyrirtækjum. Hvernig hefur þekkingarstjórnun áhrif á mannauð, nýsköpun og viðskiptaauð? Í málstofunni var í fyrsta lagi gerð grein fyrir viðleitni til að tengja saman kenningar um þekkingarstjórnun og þekkingarverðmæti og í öðru lagi var könnun kynnt frá árinu 2007 þar sem stjórnendur voru spurðir um árangur þekkingarstjórnunar. Í þriðja lagi voru þessar niðurstöður notaðar til að þróa kenningarlegt líkan yfir þekkingarstjórnun og verðmætasköpun fyrirtækja sem efla samkeppnisfærni þeirra. Að lokum var gerð grein fyrir fyrirhugaðri rannsókn sem hefur að markmiði að þróa hið kenningarlega líkan frekar í tilviksrannsóknum í íslenskum fyrirtækjum.

 

19. október 2011: Erfiðis- eða akkerisáhrif?

Kári Kristinsson, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar 19. október síðastliðinn.

Rannsóknir benda til að neytendur noti þumalputtareglur þegar þeir meta verðmæti vara.  Ein slík er þumalputtareglan um erfiði (effort heuristic). Í stuttu máli er það sú regla að ef mikil vinna fór í að búa til viðkomandi vöru hljóti hún að vera verðmætari (Krueger, Wirtz, Van Boven, & Altermatt, 2004). Tilraun var framkvæmd til að kanna hvort þumalputtareglan um erfiði væri bara önnur birtingarmynd af akkerisáhrifum (anchoring effect). Niðurstöður benda til að þrátt fyrir vinsældir fræðimanna sé þumalputtareglan um erfiði ekki það sem stjórni mati neytenda á verðmæti vara. 

 

12. október 2011: Samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar

Friðrik Eysteinsson, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræði-stofnunar 12. október síðastliðinn.

Ferðaþjónustan er þriðja stærsta útflutningsgrein landsmanna. Ef auka ætti veg hennar og vanda enn frekar þyrfti m.a. að skoða hver staða hennar er í samanburði við ferðaþjónustuna í helstu samkeppnislöndunum. Hvernig eru helstu styrkleikarnir og veikleikarnir? Og eru þeir þeir sömu að sumri og vetri og fyrir og eftir dvöl? Til þess að geta svarað þessum spurningum er nauðsynlegt að fyrir liggi rannsóknir á  samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar en eftir því sem best er vitað hafa hvorki opinberir aðilar, samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu né einstök fyrirtæki látið gera slíkar rannsóknir.

Á málstofunni sagði Friðrik frá því hvernig fræðimenn hafa nálgast svarið við spurningunni um samkeppnishæfni áfangastaða og leiðir til að mæla hana.  Einnig sagði hann frá niðurstöðum eigin rannsókna annars vegar og nemanda síns hins vegar á  samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar.

 

5. október 2011: Endurskilgreining fyrirtækja - áskorun stjórnenda

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Viðskipta-fræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar, miðviku- daginn 5. október síðastliðinn.

Á málstofunni var fjallað um hvað endurskilgreining íslenskra fyrirtækja krefst af stjórnendum. Sérstaklega var fjallað um hugtakið sveigjanleika fyrirtækja og vinnumarkaða. Rannsóknir, á Íslenskum vinnumarkaði, hafa sýnt að sveigjanleiki sé meiri en annars staðar. Þeir stjórnendur sem hafa náð hvað mestum árangri í kreppum á Íslandi hafa nýtt sér sveigjanleika en á sama tíma horft til framtíðarmarkmiða með þau verkefni í huga sem strax þarf að taka á.

 

28. september 2011: Mælingar á tryggð viðskiptavina

Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, verður með erindi á rannsóknamálstofu viðskiptafræði-stofnunar miðvikudaginn 28. september síðastliðinn.

Tryggð viðskiptavina skiptir fyrirtæki verulegu máli vegna þess ávinnings sem hlýst af því að viðhalda viðskiptavinum. Nokkuð almenn samstaða er í dag á meðal fræðimanna um að tryggð viðskiptavina samanstandi af tveimur víddum; annars vegar hegðunarvídd og hins vegar hugrænni vídd. Þrátt fyrir nokkuð útbreiddan skilning á því hvað felst í tryggð er verulegur skortur á almennri nálgun við mælingar á tryggð. Í rannsóknum er nokkuð algengt að einungis sé horft til lítils hluta þeirra þátta sem þó er samstaða um að myndi tryggðarhugtakið.

Á málstofunni verður farið yfir skilgreiningu á tryggð og dregnir saman þeir þættir sem taldir eru falla undir hugtakið. Fjallað verður um með hvaða hætti hugtakið hefur verið mælt í rannsóknum og annmarkar á því dregnir fram þegar það á við. Vonast er til þess að á málstofunni myndist góðar og gagnrýnar umræður um þá þætti sem mynda tryggð og aðferðir við mælingar á hugtakinu sem von stendur til að leiði til áframhaldandi þróunar á vönduðu og gagnlegu mælitæki á tryggð viðskiptavina.

Hér má nálgast glærur Auðar frá málstofunni.

 

21. september 2011: Þróun á viðhorfi og væntingum nýnema við Háskóla Íslands

Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskipta- fræðistofnunar miðvikudaginn 21. september síðastliðinn.

Á málstofunni var kynnt rannsóknaráform sem hafa það að markmiði að varpa ljósi á væntingar nýnema við Háskóla Íslands. Rannsóknin byggir á sambærilegri rannsókn frá því 2004 og var gerð grein fyrir niðurstöðum þeirrar rannsóknar á málstofunni.

Um er að ræða megindlega viðhorfskönnun og var spurningum skipt í fjóra hluta, níu spurningar sem tengjast þeirri ákvörðun að leggja stund á háskólanám, fjórtán spurningar tengdar þeirri ákvörðun að stunda háskólanám við Háskóla Íslands, þrettán spurningar tengdar væntingum stúdenta á meðan á námi stendur og níu spurningar tengdar bakgrunni svarenda. Gagnaöflun stóð yfir í tvær vikur og höfðu þá 574 nemendur svarað könnuninni en hún var send til 1.398 nýnema.

Í þessari málstofu voru spurningar sem tengjast væntingum stúdenta sérstaklega til umfjöllunnar og þeirri spurningu varpað fram hvort ytri áhrifaþættir, eins og aukin samkeppni og efnahagshrun, geti haft áhrif á þær væntingar.

 

14. september 2011: Mikilvægi verkefnastjóra við úthýsingu

Eðvald Möller, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar miðvikudaginn 14. september síðastliðinn.

Í málstofunni var fjallað um bakgrunn úthýsingar (e. outsourcing) og frumathugun kynnt. Úthýsing liggur aðallega í tveimur kenningum. Annars vegar kenningunni um viðskiptakostnað (e. transaction cost) og hins vegar kenningunni um aðfangamiðaða sýn (e. resource-based) á fyrirtækið. Úthýsing er ekki ákvörðun um að kaupa vöru eða þjónustu heldur um að fyrirtæki leggi niður hluta af innri starfsemi sinni.

Meginástæðan fyrir því að fyrirtæki nýta sér úthýsingu er sérþekking annarra aðila á vörunni/þjónustunni sem á að bjóða uppá. Í erindinu var m.a. gerð grein fyrir hlutverki verkefnastjóra í úthýsingu. Ljóst er að fyrirtæki þurfa að hafa skilning á verkefninu og væntingum. Hvort sem aðilinn er verkkaupi eða ekki skiptir miklu máli að vel takist til. Verkefnastjórinn getur verið lykilaðili í ferlinu við úthýsingu þar sem hann getur fylgt eftir stefnumiðuðum ákvörðunum fyrirtækis.

Verðmætustu viðskiptavinirnir eru þeir sem sýna fyrirtækjum tryggð. Þeir velja fyrirtækið fram yfir önnur fyrirtæki, þeir eyða meiri peningum í vörur og þjónustu fyrirtækisins, þeir tala á jákvæðan hátt um fyrirtækið við aðra og eru ólíklegri en aðrir til að hætta í viðskiptum, jafnvel þó upp kunni að koma mistök. Tryggir viðskiptavinir eru því arðsömustu viðskiptavinir fyrirtækja og það er til mikils að vinna að auka tryggð sérhvers viðskiptavinar og að auka fjölda þeirra tryggu.

Á málstofunni verður fjallað um fyrirhugaðar rannsóknir á tryggð viðskiptavina á íslenskum markaði. Hugmyndafræðin á bak við rannsóknirnar verður kynnt og rætt um þá aðferðafræði sem ætlunin er að beita.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is