Háskóli Íslands

Haustmisseri 2012

19. desember 2012: COBEREN - Skipulag, framkvæmd og aðferðafræði

Auður Hermannsdóttir er aðjúnkt við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

COBEREN er rannsóknarverkefni sem var sett af stað með það að markmiði að kanna neyslumenningu, neytendahegðun og tengsl þessara hugtaka í 30 löndum í Evrópu. Frá árinu 2009 hefur hópur rannsakenda einblínt á drykkjarneyslu í þessu sambandi og er afrakstur þeirrar vinnu bókin Consumption Culture in Europe: Insight into the Beverage Industry sem nú er í prentun. Þriggja ára styrkur frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði þessa vinnu mögulega.

Á málstofunni var fjallað um hvernig staðið hefur verið að skipulagi og framkvæmd þessa stóra rannsóknarverkefnis. Auk þess var farið ítarlega yfir þá aðferðafræði sem beitt var í COBEREN. Að lokum var rætt um þau tækifæri sem geta falist í því fyrir rannsakendur og þær stofnanir sem þeir starfa hjá að taka þátt í rannsóknarverkefni sem þessu.

 

21. nóvember 2012: Viðhorf til samningatækni og þess að reyna að hækka launin í launaviðtali - Er kynjamunur?

Þóra Christiansen er aðjúnkt við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Prufukeyrsla spurningalista (pilot study) bendir til þess að nýliðar á vinnumarkaði hafi takmarkaða þekkingu á og færni í samningatækni. Enn fremur kemur fram að yfir tveir þriðju myndu líklega ekki reyna að semja um hærri laun ef þeir fengju tilboð sem væri ‘ásættanlegt’ og einungis fjórðungur væri líklegur til að reyna að semja um hærri laun.
-Munur reyndist á því hvað þátttakendur álíta góða ráðleggingu fyrir skólafélaga í atvinnuviðtali og því hvort þeir væru sjálfir líklegir til að framfylgja sömu ráðum.
-Munur reyndist á viðhorfi karla og kvenna  til þess að reyna að hækka launin, til þess að setja launakröfu fram sem launabil og til þess að reyna að semja um fleiri atriði en bara laun.

 

14. nóvember 2012: Nýhugsun og hugmyndastjórnun í opinberum rekstri

Gunnar Óskarsson er aðjúnkt við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Miklar kröfur eru gerðar til opinberra stofnana um hagræðingu í rekstri. Eftir því sem á líður og leiðir til sparnaðar og hagræðingar hafa verið fundnar og innleiddar verður stöðugt erfiðara að finna fleiri þætti í starfseminni sem betur mega fara. Það er því nauðsynlegt að kafa „dýpra“ og „leggja höfuðin í bleyti“ til að finna nýjar leiðir til hagræðingar. Enn fremur er mikilvægt fyrir stofnanir og fyrirtæki hins opinbera að þróa þjónustu, t.d. menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknarstofnanir. Til að ná árangri við öflun og markvissa nýtingu hugmynda eru fyrirtæki og stofnanir í auknum mæli farnar að nýta sér aðferðir hugmyndastjórnunar og nýta sérhæfð upplýsingakerfi í þessu skyni til að ná sem bestum árangri. Nýsköpun er því ekki einungis viðfangsefni fyrirtækja í vöruþróun, heldur er hún mikilvægur þáttur í rekstri opinberra stofnana og fyrirtækja í opinberum rekstri.
Lítið er um rannsóknir um nýsköpun í opinberum rekstri og hugmyndastjórnun í þeim. Til að fá innsýn í hvaða aðferðir þær styðjast við í hugmyndastjórnun og nýsköpunarferlinu var ákveðið að vinna rannsókn meðal opinberra stofnana og fyrirtækja á Íslandi. Rannsóknin náði til allra opinberra stofnana og fyrirtækja með 50 starfsmenn og fleiri. Á málstofunni voru fyrstu niðurstöður kynntar.

 

7. nóvember 2012: Stjórnarstörf í stærstu fyrirtækjum og lífeyrissjóðum á Íslandi

Jón Snorri Snorrason er lektor við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Haustið 2013 taka gildi breytingar á lögum um hlutafélög sem kveða á um að í stjórnum hf ehf og ohf þar sem starfa að jafnaði 50 starfsmenn á ársgrundvelli eða fleiri skuli bæði kynin eiga fulltrúa í stjórn. Aðkoma kvenna í stjórnum er rannsökuð. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja störf stjórnarmanna og skoða viðhorf þeirra til kynjakvótalaganna. Úrtakið var hentug leikaúrtak en undir það féllu stjórnarmenn 300 stærstu fyrirtækja landsins á árinu 2011 samkvæmt lista Frjálsrar verslunar, stjórnarmenn vátrygginga- og fjármálafyrir tækja og lífeyrissjóða.

 

17. október 2012: Stéttarfélagsaðild á Íslandi:

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson er dósent við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Stéttarfélagsaðild er háð ýmsum skilyrðum og það eru einkum þrjú atriði sem eru talin skýra háa stéttarfélagsaðild hér á landi. Í fyrsta lagi er það forgangsréttarákvæði til vinnu, hið svokallað Ghent kerfi sem tengir réttindi til atvinnuleysisbóta við stéttarfélagsaðild og loks tenging félagsaðildar við lífeyrissjóðakerfið á sínum tíma. Á málstofunni var rætt um stéttarfélagsaðild á Íslandi, varpað ljósi á þróun hennar og sú þróun borin saman við stéttarfélagsaðild í öðrum löndum. Leitað var skýringa á því af hverju stéttarfélagsaðild hér á landi hefur þróast í aðra átt en víðast hvar annars staðar.

 

10. október 2012: Virðismat á sýnileika kostunarréttinda út frá auglýsingaígildum:

Gísli Eyland er með MS gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Viðskipa-fræðideild Háskóla Íslands

Íslenskur Toppfótbolti eru samtök félaga í efstu deild karla í knattspyrnu. Samtökin vilja byggja upp þekkingu sína á sviði kostunar og fólust eftir því að verðmæti nafnaréttar deildarinnar yrðu metin. Rannsóknin fól í sér að meta þann sýnileika sem hlýst af nafnaréttindum efstu deildar karla í knattspyrnu í íslenskum fjölmiðlum. Kostnaður auglýsinga í snertiverðum var einnig metinn útfrá fjölmiðlamælingum og verðskrám. Þar sem talsverð óvissa ríkir um áræðanleika þessara mælinga sem og hvernig eigi að umbreyta virkni kostunar yfir í auglýsingarígildi var hermilíkan smíðað fyrir virðisgreininguna..

 

3. október 2012: Samband á milli ánægju viðskiptavina og tryggðar:

Auður Hermannsdóttir er aðjúnkt við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvætt samband tryggðar viðskiptavina og árangurs fyrirtækja á ýmsum sviðum. Tryggð viðskiptavina er stjórnendum því hugleikin, en það getur verið snúið að átta sig á með hvaða hætti sé best að auka tryggð. Vitað er að forsenda þess að viðskiptavinur geti orðið tryggur er að hann sé ánægður með fyrirtækið, þjónustu þess og eftir atvikum vörur. En sambandið á milli ánægju viðskiptavina og tryggðar hefur ekki verið rannsakað nægilega, sér í lagi er skortur á rannsóknum á viðfangsefninu á fyrirtækjamarkaði. Á málstofunni var greint frá rannsókn þar sem sambandið á milli ánægju viðskiptavina og tryggðar var kannað á fyrirtækjamarkaði.

 

26. september 2012: Nýhugsun í íslenskum fyrirtækjum:

Gunnar Óskarsson er aðjúnkt við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Fyrirtæki eiga stöðugt erfiðara uppdráttar án þess að þau komi reglulega fram með nýjar vörur og þjónustu. Árangur í nýsköpun er háður færni á tveimur megin sviðum, nýhugsun, sem nær til framenda eða upphaf nýsköpunar, og nýsköpunarfærni sem nær til síðari stiga í nýsköpunarferlinu. Á málstofunni var kynnt mælitæki fyrir nýhugsun og prófun í íslenskum fyrirtækjum.

 

12. september 2012: Ferilsskrá (CV) rannsókir á íslenskum vinnumarkaði:  

Kári Kristinsson er lektor við Viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Á málstofunni var farið yfir nokkrar nýlegar rannsóknir á íslenskum vinnumarkaði þar sem svokallað CV-snið var notað. Átta útgáfur af spurningalistum voru lagðar rafrænt fyrir ráðningaraðila á íslenskum vinnumarkaði. Í úrtakinu voru mannauðsstjórar 300 stærstu fyrirtækjanna á Íslandi og skoðuð voru meðal annars áhrif kynferðis, andlitsfegurðar, einkunna og skólavistar umsækjenda - á launatilboð og líkur á ráðningu fyrir ákveðið starf. Einnig var farið yfir fyrirhugaðar rannsóknir þar sem sama snið verður notað til að skoða aðra þætti íslensks vinnumarkaðar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is