Háskóli Íslands

Rannsóknamiðstöð um alþjóðaviðskipti: Fundir

Haldnir hafa verið allnokkrir viðburðir í tengslum við INTICE rannsóknarverkefnið, bæði málstofur og fundir. Hér að neðan er að finna upplýsinar um viðburðina.

 

6. maí 2008: Alþjóðavæðing - Sóknarfæri erlendis

Þriðjudaginn 6. maí stóð INTICE rannsóknaverkefni í samvinnu við Útflutningsráð Íslands fyrir morgunverðarfundi á Hótel Sögu, undir yfirskriftinni: Alþjóðavæðing - sóknarfæri erlendis. Þar fjallaði Birgir Jónsson framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi Kvosar um starfsemi fyrirtækisins, vöxt Kvosar erlendis undanfarin ár og lýsti fyrirætlunum um áframhaldandi vöxt. Kvos er nú leiðandi eignarhalds- og fjárfestingafélag í prentiðnaði og skyldum rekstri. Kvos er samsteypa með alþjóðlega starfsemi og er meðal annars með starfsemi í Búlgaríu, Rúmeníu og Póllandi. Fyrirtækið hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og hjá því starfa nú um 1300 manns.

 

4. janúar 2008: Managing the Growing Global Corporation

Föstudaginn 4. janúar var haldinn fundur fyrir MBA nemendur undir yfirskriftinni: Managing the Growing Global Corparation. Timothy Devinney, sem var þá staddur hér á landi á vegum Viðskiptafræðistofnunar, var meðal mælenda á fundinum. Í erindi sínu ræddi hann meðal annars um alþjóðlega viðskiptastefnu og ferli alþjóðavæðingar. Glærur úr erindi hans má nálgast með því að smella hér.

 

6. nóvember 2008: Mat á framkvæmd stefnu

Þriðjudaginn 6. nóvember efndi Stjórnvísi í samvinnu við Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands til morgunverðarfundar í Harvard salnum á Hótel Sögu. Þar fjallaði Þórunn Eggertsdóttir um meistararitgerð sína sem hún vinnur nú að. Áhersla Þórunnar er á mat á framkvæmd stefnu. Hún ræddi fyrst stuttlega um hvernig fyrirtæki koma stefnu sinni í framkvæmd. Því næst fjallaði hún um hvernig menn fara að því að leggja mat á hve árangursrík framkvæmdin hefur verið, annars vegar hvað fræðimenn segja og hins vegar hvað viðmælendur hennar sögðu. Að lokum ræddi hún hvernig árangur af íslensku útrásarfyrirtækjunum verður metinn og gaf sýnishorn af því. Þegar Þórunn hafði lokið máli myndust góðar og gagnlegar umræður.

 

30. október 2007: Lykill að samkeppnisforskoti á erlendum mörkuðum - aðgreining frá samkeppnisaðilum

Þriðjudaginn 30. október efndi Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands til morgunverðarfundar í Yale á Hótel Sögu frá 8.00 til 10.00. Þar fjölluðu Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis og Þórhallur Guðlaugsson dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands um aðferðir fyrirtækja við að ná árangri á erlendum mörkuðum. Þórhallur fjallaði almennt um syllu markaðssetningu (niche strategy) fyrirtækja og Magnús um hvernig unnið er að því innan Glitnis að ná til markaða sem mörg önnur fyrirtæki líta framhjá. Í alþjóðlegri starfsemi bankans er lögð áhersla á endurnýjanleg orkumál og sjávarútveg og fór Magnús yfir hver lykillinn er að því að ná árangri og samkeppnisforskoti á þeim mörkuðum.

 

29. maí 2007: Yfirlit yfir erlendar fjárfestingar frá Íslandi 1998 til 2005

Auður Hermannsdóttir starfsmaður rannsóknarverkefnisins hélt fyrirlestur á málstofu þann 29. maí sl. í Odda. Fyrirlesturinn var byggður á vinnugrein sem Auður, Anný Berglind Thorstenssen og Snjólfur Ólafsson eru að leggja lokahönd á og ber yfirskritina: Overview of foreign investment from Iceland 1998 to 2005.Í fyrirlestrinum var hugtakið erlend fjárfesting útskýrt þar sem erlendum fjárfestingum var skipt í beinar erlendar fjárfestingar og fjárfestingar í erlendum verðbréfum. Greint var frá mismunandi aðferðum sem notaðar eru á milli landa við mælingar á fjármunaeign erlendis og í því sambandi dregin fram þau tvö meginsjónarmið sem uppi hafa verið hér á landi um slíkar mælingar, þ.e. hvort skrá skuli fjármunaeign erlendis á markaðsvirði eða á bókfærðu virði. Kostir og gallar hvorrar aðferðar voru dregnir fram. Sýnd var þróun í fjármagnsflæði og fjármunaeign beinna erlendra fjárfestinga frá Íslandi. Þróun í fjárfestingum í erlendum verðbréfum var einnig sýnd ásamt því hvernig hlutfallið hefur verið á milli þessara tveggja tegunda erlendra fjárfestinga. Dregið var fram hvernig bein erlend fjárfesting hefur skipst eftir atvinnugreinum og eftir löndum. Að lokum voru beinar erlendar fjárfestingar frá Íslandi bornar saman við beinar erlendar fjárfestingar frá öðrum löndum. Glærur úr málstofunni má nálgast með því að smella hér.

 

22. maí 2007: Tilgátur um helstu ástæður góðs árangurs útrásarfyrirtækjanna

Snjólfur Ólafsson prófessor og verkefnastjóri rannsóknarverkefnisins hélt fyrirlestur á málstofu þann 22. maí sl. í Odda. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina Tilgátur um helstu ástæður góðs árangurs útrásarfyrirtækjanna. Þar sagði Snjólfur frá því hverjar verkefnisstjórn rannsóknarverkefnisins telur vera meginástæður fyrir því að mörg íslensk útrásarfyrirtæki hafa vaxið mjög hratt undanfarin ár. Fyrirlesturinn var byggður á vinnugrein (working paper) sem Snjólfur ásamt Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni og Þórhalli Guðlaugssyni vinna nú að og mun bera yfirskriftina: Hypothesis about the reasons for the fast international growth of Icelandic companies. Þær megintilgátur sem verkefnisstjórnin setur fram sem ástæður fyrir hröðum vexti margra útrásarfyrirtækjanna eru felldar í fjóra flokka: (1) Gott rekstrarumhverfi, (2) einbeittur vilji til að vaxa hratt, (3) öflugir stjórnendur og (4) heppileg fyrirtækjamenning.Glærur úr málstofunni má nálgast með því að smella hér.

 

10. maí 2007: Tengsl fyrirtækjamenningar og þjóðmenningar

Fimmtudaginn 10. maí sl. var efnt til ráðstefnu í samstarfi við Þekkingarmiðlun ehf. um tengsl fyrirtækjamenningar og þjóðmenningar. Sérstakur gestur ráðstefnunnar var hinn heimskunni fræðimaður Dr. Geert Hofstede, Emeritus Prófessor við University of Limburg í Maastricht í Hollandi og stofnandi Institute for Research of International Cooperation. Ein þekktasta aðferðin sem notuð hefur verið til að varpa ljósi á menningu er aðferðafræði sem unnin hefur verið undir stjórn Geert Hofstede. Á ráðstefnunni fjallaði Hofstede m.a. um þessa aðferðafræði og þær menningarvíddir sem lagt er upp með í þeirri aðferðafræði. Erindi Hofstede bar yfirskriftina: „Culture´s Consequences: on the connection between organizational and national culture, with emphasis on Nordic cultures". Glærur Dr. Geert Hofstede má nálgast með því að smella hér.

Gert Jan Hofstede var með erindi á ráðstefnunni undir yfirskriftinni „Culture´s Causes; a biologist´s perspective". Hann er sonur Geert Hofstede og hefur á síðustu árum fetað í fótspor föðurs síns og rannsakað menningu. Gert Jan Hofstede er líffræðingur að mennt og nýtir þann bakgrunn sinn og þekkingu á áhugaverðan og nýstárlegan hátt í umfjöllun sinni um menningu. Glærur Gert Jan Hofstede má nálgast með því að smella hér.

Guðjón Svansson, forstöðumaður hjá Útflutningsráði Íslans, flutti fróðlegt erindi á ráðstefnunni sem bar yfirskriftina: „Víkingar eða veiðimenn - áhrif þjóðmenningar á íslensk útflutningsfyrirtæki". Guðjón hefur mikla reynslu af áhrifum ólíkrar menningar á rekstur fyrirtækja erlendis og á ráðstefnunni fjallaði hann um ýmsa áhugaverða þætti sem skipta máli í því sambandi.

Fjórði og síðasti framsögumaður á ráðstefnunni var Jón Kr. Gíslason, starfsmannastjóri Össurar. Erindi Jóns bar yfirskriftina „Innleiðing fyrirtækjamenningar" og fjallaði hann um reynsluna  af því að innleiða „Össurar-menningu" í erlendar starfsstöðvar sem fyrirtækið hefur yfirtekið. Glærur Gert Jan Hofstede má nálgast með því að smella hér.

 

17. apríl 2007: Frumkvöðlamenning - ein af ástæðunum fyrir örum vexti íslenskra útrásarfyrirtækja

Snjólfur Ólafsson prófessor og verkefnastjóri rannsóknarverkefnisins hélt fyrirlestur á málstofu þann 17. apríl sl. í Odda. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina Frumkvöðlamenning - ein af ástæðunum fyrir örum vexti íslenskra útrásarfyrirtækja. Þar sagði Snjólfur frá rannsóknarverkefninu um útrás íslenskra fyrirtækja, fjallaði um markmiðið með rannsóknarverkefninu og þær rannsóknarspurningar sem liggja til grundvallar verkefninu. Snjólfur fór einnig í stórum dráttum yfir þá vinnu sem unnin hefur verið síðan rannsóknarverkefnið var sett af stað í október á síðasta ári. Meginumfjöllunarefnið var þó efni vinnugreinarinnar (Working Paper) How entrepreneurial culture can support fast international growth, sem Snjólfur skrifaði ásamt Þórhalli Guðlaugssyni og Auði Hermannsdóttur. Í greininni er fjallað um fræðin bak við frumkvöðlamenningu og í því sambandi einblínt á átta íslensk útrásarfyrirtæki sem hafa vaxið hratt á undanförnum árum. Í greininni er sett fram og rökstudd sú tilgáta að frumkvöðlamenning sé ein af ástæðunum fyrir miklum og hröðum vexti margra íslenskra útrásarfyrirtækja. Vinnugreinina: How entrepreneurial culture can support fast international growth má nálgast með því að smella hér. Glærur úr málstofunni má nálgast með því að smella hér.

 

6. febrúar 2007: Stefna og samkeppnishæfni

Runólfur Smári Steinþórsson prófessor og meðlimur í verkefnastjórn rannsóknarverkefnisins hélt fyrirlestur á málstofu þann 6. febrúar sl. í Odda. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina: Stefna og samkeppnishæfni. Þar fjallaði Runólfur um hugtökin stefnu og samkeppnishæfni. Farið var yfir þá þróun sem hefur verið í fræðunum varðandi stefnuhugtakið og athyglin síðan bundin við umfjöllun og skilgreiningar Michaels Porters á hugtakinu. Einnig var varpað ljósi á umfjöllun Michaels Porter á samkeppnishæfni.

 

3. janúar 2007: Umræða um útrásina

Miðvikudaginn 3. janúar 2007 stóð Viðskiptafræðistofnun fyrir fjölmennum umræðufundi í Odda undir yfirskriftinni: Umræða um útrásina. Framsögumenn á fundinum voru Snjólfur Ólafsson, verkefnisstjóri rannsóknarverkefnisins um útrás íslenskra fyrirtækja, Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá, Sigrún Davíðsdóttir, blaðamaður, Ásta Dís Óladóttir, doktorsnemi og Guðjón Svansson, forstöðumaður hjá Útflutningsráði.

Snjólfur Ólafsson setti fundinn. Hann fjallaði um rannsóknarverkefnið um útrás íslenskra fyrirtækja, gerði grein fyrir helstu rannsóknarspurningunum og útskýrði í stórum dráttum hvernig ætlunin er að svara þeim. Jafnramt greindi Snjólfur stuttlega frá þeim rannsóknum sem hafnar eru.

Þór Sigfússon fjallaði um hversu ört íslenskt fyrirtækjaumhverfi hefur breyst og hvernig viðmiðin um stærð fyrirtækja hefðu breyst. Þau fyrirtæki sem voru mjög stór á íslenskan mælikvarða fyrir tíu árum eru lítil í dag. Hann sagði að einn helsti styrkur Íslendinga væri sá að við hefðum alþjóðlegra hugarfar en aðrir og að við værum með háleitari markmið. Þór lagði áherslu á nauðsyn þess að Íslendingar legðu meiri áherslu á alþjóðlegt tengslanet sem hann sagði afar mikilvægan þátt í útrásinni.

Sigrún Davíðsdóttir ræddi um könnun þar sem hún athugaði hvernig íslenskir stjórnendur líta á sjálfa sig og sinn stjórnunarstíl og jafnframt hvernig erlendir aðilar líta á íslenska stjórnendur. Hún sagði íslenskan stjórnunarstíl einkennast af hraðri ákvarðanatöku, flötu skipulagi, að menn hefðu mikið frumkvæði og um leið mikla ábyrgð. Sigrún sagði að henni fyndist íslenska útrásin karladrifin, að yfirbragðið væri svolítið strákalegt og að heilt á litið væri íslenska útrásin ótrúlega karlkyns.

Ásta Dís Óladóttir fjallaði um doktorsverkefni sitt sem hún hefur unnið að síðustu tvö ár við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Ásta hefur verið að skoða 21 íslenskt fyrirtæki sem öll eiga það sammerkt að hafa fjárfest umtalsvert erlendis. Meðal þess sem Ásta er að kanna er hvernig sé hægt að auka líkur á því að fjárfestingar verði árangursríkar. Ásta Dís talaði um að þrátt fyrir að stjórnendum íslensku útrásarfyrirtækjanna sé algjörlega ljóst í dag hvert fyrirtækin eru að stefna, hefði stefna fyrirtækjanna sjaldnast verið skýr í upphafi.

Guðjón Svansson fjallaði um fyrirtækjamenningu sem hann sagði vera útgangspunkt fyrir íslensku útrásina. Hann sagði Íslendinga hafa þor til að hugsa stórt og hæfni til að taka skjótar ákvarðanir. Eitt af því sem hann sagði einkenna Íslendinga er að sjái þeir tækifæri hiki þeir ekki við að grípa þau, þrátt fyrir að þau passi ekki endilega inn í fyrri áætlanir. Hann sagði skýringuna á þessari miklu útrás einkum vera hæfni okkar til að skanna tækifæri, þor til að grípa þau og aðgengi fyrirtækjanna að fjármagni. En Guðjón sagði að grunnforsenda þess að góður árangur náist sé fyrirtækjamenningin.

Fundargestir tóku virkan þátt í umræðu um útrásina og höfðu margt áhugavert til málanna að leggja.

 

30. nóvember 2006: Skiptir fyrirtækjamenning máli?

Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands stóð fyrir morgunverðarfundi á Grand Hótel fimmtudaginn 30. nóvember. Einn af þeim þáttum sem verið er að rannsaka innan Viðskiptafræðistofnunar um þessar mundir, sem áhrifaþátt á árangur fyrirtækja í útrás, er fyrirtækjamenning. Skiptir fyrirtækjamenning máli fyrir árangur fyrirtækja? Hvernig er menning íslensku útrásarfyrirtækjanna? Hvaða þætti menningarinnar telja stjórnendur útrásarfyrirtækjanna mikilvægt að yfirfæra á þau erlendu fyrirtæki sem keypt eru? Hvernig er staðið að samþættingu menningar hjá íslensku útrásarfyrirtækjunum við samruna eða yfirtökur? Þessum spurningum ásamt fleirum svöruðu Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa og Jón Kr. Gíslason, starfsmannastjóri Össurar á morgunverðarfundi Viðskiptafræðistofnunar sem bar yfirskriftina: Skiptir fyrirtækjamenning máli?

Ásbjörn og Jón Kr. lögðu báðir áherslu á mikilvægi fyrirtækjamenningar fyrir velgengni fyrirtækja. Ásbjörn lagði áherslu á að í þeirri miklu samkeppni sem ríkir skipti starfsfólkið og fyrirtækjamenningin sköpum. Hann sagði að Samskip legðu áherslu á að vera frumkvöðlar og vera ávallt skrefi á undan. Hins vegar er í flestum tilfellum auðvelt fyrir samkeppnisaðila að taka upp nýjungarnar sem Samskip koma með á markað. Ásbjörn sagði að það eina sem samkeppnisaðilarnir gætu ekki hermt eftir væri starfsfólkið og hvernig það vinnur sem ein liðsheild. Því skipti miklu máli í samkeppninni að leggja áherslu á öflugt starfsfólk og fyrirtækjamenningu. Jón Kr. lagið áherslu á mikilvægi megingilda Össurar sem eru heiðarleiki, hagsýni og hugrekki. Hann sagði megingildin vera það mikilvægasta í fyrirtækjamenningunni og að hin sterku gildi hafi skipta sköpum í yfirtökum fyrirtækisins. Þrátt fyrir að hjá báðum félögunum, Samskipum og Össuri, sé umfram allt reynt að yfirfæra menningu fyrirtækjanna yfir á þau fyrirtæki sem keypt eru, er þó í sumum tilfellum reynt að breyta menningu inn á við. Ásbjörn nefndi dæmi um kaup Samskipa á hollenska fyrirtækinu Geest. Þar sagði hann að félögin hefðu verið mjög ólík. Í Geest var mikil formfesta og skipulag en í Samskipum meiri dínamík og óskipulag. Það var markmið að skapa félag sem væri þarna mitt á milli, taka allt það góða úr Samskipum og allt það góða úr Geest, þó þannig að sérkenni og styrkleikar Samskipa fengju að njóta sín. Jón Kr. taldi að oftar mætti staldra við og kanna hvort ákjósanlegt væri að nýta þætti í menningu þeirra fyrirtækja sem verið er að kaupa. Hann sagði Íslendinga oft uppteknari við að losa sig við stjórnunarstíla sem ekki henta og innleiða sín eigin gildi. Hann taldi að í sumum tilfellum gæti verið heppilegt að staldra örlítið við og spyrja sig hvort það sé eitthvað í menningu keyptu fyrirtækjanna sem fýsilegt væri að innleiða í menningu fyrirtækisins sem kaupir. Jón Kr. tók sem dæmi óstundvísi, en bæði hann og Ásbjörn voru sammála um að óstundvísi væri landlægur höfuðverkur. Glærur Ásbjarnar Gíslasonar má nálgast með því að smella hér.

 

22. nóvember 2006: Er til íslensk fyrirtækjamenning?

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson lektor og meðlimur í verkefnastjórn rannsóknarverkefnisins hélt fyrirlestur á málstofu þann 22. nóvember sl. í Odda. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina: Er til íslensk fyrirtækjamenning? Þar fjallaði Gylfi um hugtakið fyrirtækjamenning og tengsl þess við þjóðmenningu. Jafnframt greindi hann frá ýmsum mælitækjum sem mæla menningu fyrirtækja og fjallaði um og hvað einkennir menningu íslenskra fyrirtækja. Glærur úr málstofunni má nálgast hér.

 

18. október 2006: Nýtt rannsóknarverkefni: Útrás íslenskra fyrirtækja 1998 til 2007

Snjólfur Ólafsson prófessor og verkefnastjóri rannsóknarverkefnisins hélt fyrirlestur á málstofu þann 18. október sl. í Odda. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina: Nýtt rannsóknarverkefni: Útrás íslenskra fyrirtækja 1998 til 2007. Þar kynnti Snjólfur rannsóknarverkefnið, fjallaði um aðdraganda þess og markmið. Glærur úr málstofunni má nálgast hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is