Háskóli Íslands

Rannsóknamiðstöð um alþjóðaviðskipti: Útrás fyrirtækja

Á haustmánuðum 2006 setti Viðskiptafræðistofnun af stað metnaðarfullt rannsóknarverkefni, INTICE, til að rannsaka hina svokölluðu útrás íslenskra fyrirtækja. Ljóst var að verkefnið var viðamikið og margslungið en til einföldunar var það greint í þrjú undirverkefni.

  • Lýsing á útrásinni, m.a. að skoða hvernig einstök fyrirtæki hafa þróast með áherslu á starfsemi þeirra erlendis.

  • Að leggja mat á árangurinn af útrásinni.

  • Að draga fram á sem skýrastan máta helstu ástæður þess hve vel hefur tekist til, svo fremi sem rannsóknin staðfesti að vel hafi tekist til.

 

Verkefnið var styrkt af Actavis, Eyri Invest, Glitni, Landsbankanum, Kaupþingi og Útflutningsráði.

 

Verkefnastjóri INTICE er Snjólfur Ólafsson, prófessor og með honum í verkefnastjórn eru Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent og Þórhallur Guðlaugsson, dósent. Auk þeirra hafa fjölmargir aðrir komið að þessu rannsóknarverkefni, m.a. ýmsir meistaranemar.

 

Fljótlega varð ljóst að afmarka yrði viðfangsefnið og var megináherslan lögð á að rannsaka stjórnun einstakra fyrirtækja og alþjóðlegan vöxt þeirra. Í því fólst þar með að fjalla ekki um áhættufjárfestingar, ekki um fjármögnun fyrirtækjanna og ekki um áhrif útrásarinnar á þjóðfélagið. Segja má að tvö meginrannsóknarefni hafi vegið þyngst í rannsóknunum:

  • Fyrirtækjamenning í íslenskum fyrirtæjum og efni tengd því.

  • Ferli alþjóðavæðingar íslenskra fyrirtækja, einkum framleiðslufyrirtækja.

 

Á árinu 2008 gjörbreyttust forsendur fyrir verkefninu. Í fyrsta lagi varð fjármögnun mjög erfið og af þeim sökum er lítill kraftur í rannsóknarverkefninu miðað við það sem áður var, en það heldur samt áfram. Í öðru lagi breyttist rannsóknarviðfangsefnið mikið. Segja má að það hafi verið lán í óláni að áherslan hefur verið á framleiðslufyrirtæki, einkum Actavis, Marel, Promens og Össur. Starfsemi þessara fyrirtækja hefur ekki tekið neinum grundavallarbreytingum enda þótt þau hafi vissulega fundið fyrir hinni alþjóðlegu efnahagskreppu.

 

Nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið veitir: Snjólfur Ólafsson, prófessor (snjolfur@hi.is)

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is