Háskóli Íslands

Vormisseri 2011

26. maí 2011: Nýsköpunargeta fyrirtækja

Guðlaug Þóra Stefánsdóttir, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 26. maí síðastliðinn.

Töluvert hefur verið fjallað um nýsköpun, sprotafyrirtæki og árangur þeirra á undanförnum árum. Í því samhengi er áhugavert að skoða þá þætti sem stuðla að og hafa áhrif á nýsköpunarhæfni fyrirtækja og um leið samkeppnishæfni þeirra. Dæmi um slíka þætti eru fyrirtækjamenning og skipulag fyrirtækja.

Á málstofunni var fjallað um fræðilegar nálganir á hugtakinu nýsköpunarhæfni og öðrum tengdum hugtökum. Einnig voru aðferðir við mælingar á nýsköpunarhæfni ræddar og sett fram möguleg nálgun fyrir doktorsrannsókn.

 

19. maí 2011: Íslenski sjávarklasinn

Vilhjálmur Jens Árnason flutti erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 19. maí síðastliðinn og fjallaði hann um verekfnið um íslenska sjávarklasann.

Markmið verkefnisins um íslenska sjávarklasann felst fyrst of fremst í því að kortleggja alla starfsemi er tengist hafinu hér á landi. Einnig eru könnuð tengsl ólíkra greina innan sjávarklasans og um leið bent á möguleika og tækifæri til frekara samstarfs sem getur aukið umsvif og verðmætasköpun.

Um allan heim hefur verið mikill áhugi fyrir rannsóknum á klösum (industry clusters) og áhrifum þeirra á þróun fyrirtækja og lífskjör. Mikill kraftur er í nágrannaþjóðum okkar í sambandi við stefnumörkun á þessu sviði.

Verkefnið hófst 2010 og áætlað er að því ljúki haustið 2011. Það er unnið innan Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands, en fjölmörg fyrirtæki leggja til upplýsingar og hafa aðstoðað við fjármögnun.

 

12. maí 2011: Leiðin frá ánægju til tryggðar

Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 12. maí síðastliðinn.

Verðmætustu viðskiptavinirnir eru þeir sem sýna fyrirtækjum tryggð. Þeir velja fyrirtækið fram yfir önnur fyrirtæki, þeir eyða meiri peningum í vörur og þjónustu fyrirtækisins, þeir tala á jákvæðan hátt um fyrirtækið við aðra og eru ólíklegri en aðrir til að hætta í viðskiptum, jafnvel þó upp kunni að koma mistök. Tryggir viðskiptavinir eru því arðsömustu viðskiptavinir fyrirtækja og það er til mikils að vinna að auka tryggð sérhvers viðskiptavinar og að auka fjölda þeirra tryggu.

Á málstofunni var fjallað um fyrirhugaðar rannsóknir á tryggð viðskiptavina á íslenskum markaði. Hugmyndafræðin á bak við rannsóknirnar var kynnt og rætt var um þá aðferðafræði sem ætlunin er að beita.

 

5. maí 2011: Hvatar og markmið í samningum

Þóra Christiansen, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var með erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 5. maí síðastliðinn. Velt var upp spurningunni hvort lærdómsdrifnir samningamenn ná betri árangri en frammistöðudrifnir samningamenn?

Fjallað var um íslenska útgáfu spurningalista um undirliggjandi kenningar um hæfni í samningum (implicit negotiation beliefs) og forprófun.  Greint var frá niðurstöðum rannsóknar þar sem spurningalistinn var prófaður á hópi nemenda og í kjölfarið voru gerðar fimm tilraunir þar sem hópurinn leysti af hendi samningaæfingar.

Rætt var mögulegt framhald frekari rannsókna á áhrifum undirliggjandi kenninga á árangur í samningum, þá sérstaklega rannsóknir á samningaferlinu og atferli samningsaðila, samspil skoðanakerfa og menningarþátta.

 

14. apríl 2011: Umfang og samkeppnishæfni hestamennsku á Íslandi?

Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum og Ph D nemandi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 14. apríl síðastliðinn.

Hestamennska er í dag stunduð um land allt sem atvinna og áhugamál. Fjöldi hrossa á hverja 1000 íbúa hér á landi er margfaldur á við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og fjölmargir erlendir ferðamenn koma sérstaklega til Íslands til að upplifa hestinn í sínu náttúrulega umhverfi. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er efnahagslegt umfang hestamennsku hér á landi ekki þekkt né heldur raunveruleg samsetning greinarinnar. Mat á leiðum til að efla samkeppnishæfni hestamennsku hérlendis er skammt á veg komið.

Með rannsókn sem kynnt var á þessari málstofu var reynt að bæta nokkuð úr þessum upplýsingaskorti. Leitast er  við að meta umfang og samsetningu hestamennsku á landinu og jafnframt leitað leiða til að auka samkeppnishæfni greinarinnar. Fjallað var um rannsóknina í heild sinni, fræðilegan bakgrunn, afmörkun, rannsóknarspurningar og aðferðir.  Auk þessa voru kynntar fyrstu niðurstöður úr forverkefni sem unnið er að á Norðurlandi vestra.

 

31. mars 2011: Leið orðræðugreiningar í rannsókn á stjórnun mannauðs og nýsköpunarstarfs?

Inga Jóna Jónsdóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 31. mars síðastliðinn sem bar yfirskriftina: Leið orðræðugreiningar í rannsókn á stjórnun mannauðs og nýsköpunarstarfs.

Greining og túlkun gagna og skrif um gögn í eigindlegum rannsóknum er ekki staðlað ferli og ekki eru heldur ákveðin föst viðmið gildandi þar um. Ein leið til þess að nálgast gögnin, rýna þau og draga fram þekkingu sem eykur á skilning er orðræðugreining(discourse analysis). Leið orðræðugreiningar er að margra mati allflókið verklag þar sem erfitt er að finna ákveðna forskrift til að fara eftir.

Á málstofunni var farið yfir: Hvað er orðræða (discourse)?  Hvers vegna að fara þessa leið í rannsókn á stjórnun breytinga og nýsköpunarstarfs; Hvert má sækja efniviðinn um orðræðuna í fyrirtækinu (rannsóknartilvikinu) þ.e. það sem á ensku er nefnt” the domains of organizational discourse”?; Hvert gæti verklagið í orðræðugreiningu verið? 

 

24. mars 2011: Er ímynd bankanna að styrkjast?

Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 24. mars síðastliðinn.

Á málstofunni fjallaði Þórhallur um niðurstöður rannsóknar á ímynd banka og sparisjóða frá því í febrúar 2011. Í erindinu var reynt að svara þeirri spurningu hvort ímynd banka og sparisjóða sé að styrkjast en þessi starfsemi varð fyrir miklu ímyndartjóni í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Farið var yfir aðferðafræðina, en sama aðferð hefur verið notuð frá því 2004. Gerð var grein fyrir fyrri mælingum og rannsóknarniðurstöðum sem birtar hafa verið, eða hafa verið samþykktar til birtingar, í tengslum við viðfangsefnið. Þá var gerð grein fyrir niðurstöðum fyrrgreindrar rannsóknar en einnig tveggja annarra óháðra kannanna um svipað efni.

Hér má nálgast glærur Þórhalls og grein sem fjallað var um á málstofunni.

 

17. mars 2011: Trúir fólk auglýsingum?

Auður Hermannsdóttir, aðjunkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 17. mars síðastliðinn.

Trúverðugleiki auglýsinga og almennt viðhorf neytenda til slíks kynningarefnis hefur áhrif á hversu árangursríkt slíkt efni er í markaðsstarfi fyrirtækja. Það er því mikilvægt fyrir auglýsendur að átta sig á hvort neytendur trúi almennt því sem sett er fram í auglýsingum, bæði til að geta gert sér grein fyrir mögulegum ávinningi auglýsinga og til að átta sig á hvort ástæða sé til að breyta einhverju í framsetningu auglýsinga almennt.

Á málstofunni greindi Auður frá rannsókn sem nú fer fram á viðhorfi íslenskra neytenda til auglýsinga. Niðurstöður er lúta að trúverðugleika auglýsinga að mati íslenskra neytenda voru kynntar, en auk þess var velt upp möguleikum á næstu skrefum í rannsóknarvinnunni.

Hér má nálgast glærur Auður frá málstofunni.

 

10. mars 2011: Áhrif tónlistar í auglýsingum á vörumerkjavirði

Friðrik Eysteinsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 10. mars síðastliðinn.

Tónlist í auglýsingum hefur fengið aukna athygli rannsakenda síðustu ár. Niðurstöður fyrri rannsókna benda til þess að aukin skynjuð samsvörun milli tegundar tónlistar og vörumerkis hafi jákvæð áhrif á upprifjun vörumerkisins og skynjaða ímynd þess.  Í þeim tilraunum sem hafa verið gerðar hefur sitt hvort lagið verið notað í tilraunahópunum en það gæti skekkt niðurstöðurnar.

Á málstofunni fjallaði Friðrik um tilraun sem hafði það að markmiði að kanna áhrif tónlistar í auglýsingum á vitund og ímynd vörumerkja. Auglýsing fyrir óþekkt vörumerki var útfærð á þrennan hátt. Undir tal auglýsingarinnar, sem var eins í öllum þremur tilvikunum, var sett frumsamið lag í útfærslu sem samsvaraði vörumerkinu, útfærslu sem ekki samsvaraði vörumerkinu og í þriðja tilfellinu engin tónlist. Niðurstöður tilraunarinnar ganga þvert á niðurstöður fyrri rannsókna.  

Hér má nálgast greinina sem um ræðir.

 

3. mars 2011: Siðferðileg álitaefni í markaðsstarfi

Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 3. mars síðastliðinn.

Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 jókst umræða um siðferði í viðskiptum. Í skýrslu rannsónarnefndar Alþingis er því beinlínis haldið fram að einn orsakavaldur hrunsins hafi verið skortur á siðferði. Umræðan um bætt siðferði í viðskiptum er þó ekki ný af nálinni en síðastliðin 50 ár hefur áhuga fræðimanna á bættu siðferði í markaðsstarfi aukist mikið. 

Á málstofunni var farið yfir þessar hugmyndir og sjónarmið og kynnt algengustu álitaefni hvað varðar siðferði í markaðsstarfi. Gagnrýnin beinist einkum að þremur aðilum; samfélaginu, samkeppnisaðilum og einstaklingunum. Lögð var sérstök áhersla á það síðastnefnda, þ.e. siðferðileg álitaefni er hafa áhrif á einstaklinginn. Gerð var grein fyrir þekktum aðferðum við að leggja mat á siðferðileg álitaefni en í gegnum tíðina hafa verið þróuð nokkur mælitæki í þeim tilgangi. Að lokum var greint frá rannsóknarverkefni sem gengur út á að leggja mat á ástand verðmerkinga í sýningargluggum og sagt frá niðurstöðum viðmiðunarrannsóknar sem gerð var árið 2004. 

 

17. febrúar 2011: Klasar og þekkingarkjarnar

Runólfur Smári Steinþórsson prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 17. febrúar síðastliðinn.

Á málstofunni var fjallaði um klasa og var vikið að rannsóknum á klösum. En undanfarin 2-3 ár hafa klasar fengið meiri athygli á Íslandi en áður og eru dæmi um að fyrirtæki, félagasamtök og hið opinbera séu að leggja meirir áherslu á fyrirbærið en áður.

Megintilgangurinn með málstofunni var að fá fram umræðu um klasa, velta upp áhugaverðum rannsóknarspurningum og ýta undir frekari rannsóknir á klösum hérlendis. 

 

10. febrúar 2011: Nýtt rannsóknarverkefni  í mannauðsstjórnun

Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 10. febrúar síðastliðinn.

Á málstofunni var rætt um tilraun til að hrinda af stað umfangsmiklu rannsóknarverkefni á sviði mannauðsstjórnunar í Viðskiptafræðideild. Að hluta til var almennt rætt um stór og góð rannsóknarverkefni, en einkum þó um fyrirhugað rannsóknarverkefni. 

Eftir málstofuna var ákveðið að gera tilraun til að hrinda af stað umræddu rannsóknarverkefni. Ef til vill mun það ekki einskorðast við mannauðsstjórnun og kannski fara af stað fleiri en eitt rannsóknarverkefni. Sem dæmi um hugsanlegan fókus eru traust, tryggð, commitment og fyrirtækjamenning. Snjólfur benti á að eitt af lykilatriðunum við að setja af stað gott rannsóknarverkefni er að það sé nokkuð skýrt hvaða rannsóknarspurningar séu drifkrafturinn í verkefninu eða með öðrum orðum hvaða gat eða göt í fræðunum ætlunin er að reyna að fylla í. Meðfylgjandi glærur segja nokkuð um það hvernig þetta er hugsað.

Hér má nálgast glærur Snjólfs frá málstofunni.

 

3. febrúar 2011: Frá aðgerðaleysi til samþættingar: Stefna norrænna vátryggingafélaga í loftlagsmálum

Lára Jóhannsdóttir, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hélt erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar fimmtudaginn 3. febrúar síðastliðinn.

Á málstofunni fjallaði Lára um viðmið sem Genfarsamtök vátryggjenda gáfu út 2009 um aðgerðir á sviði loftslagsmála. Einnig fór hún yfir „win-win“ og „win-lose“ kenningar sem og stefnumiðaða nálgun í umhverfismálum. Í erindinu var fjallað stuttlega um þemu sem fram hafa komið í viðtölum við stjórnendur vátryggingafélaga á Álandseyjum, í Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

 

20. janúar 2011: The goals of business

Fimmtudaginn 20. janúar hélt Dr. Simon Harris, yfirmaður alþjóðasviðs viðskiptadeildar Háskólans í Edinborg, erindi á rannsóknamálstofu Viðskiptafræðistofnunar undir yfirskriftinni The goals of business.

Í erindinu fjallaði Harris um tengsl markmiða í viðskiptum við gildi og eignarhald. Simon Harris hlaut hin virtu Gunnar Heglund verðlaun fyrir doktorsritgerð sína og hefur skrifað greinar um alþjóðaviðskipti, stefnumörkun o.fl. í ýmis virt tímarit. Hann vinnur að rannsóknum með Þór Sigfússyni doktorsnema við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um félagsleg net og alþjóðleg frumkvöðlafyrirtæki.

Verðmætustu viðskiptavinirnir eru þeir sem sýna fyrirtækjum tryggð. Þeir velja fyrirtækið fram yfir önnur fyrirtæki, þeir eyða meiri peningum í vörur og þjónustu fyrirtækisins, þeir tala á jákvæðan hátt um fyrirtækið við aðra og eru ólíklegri en aðrir til að hætta í viðskiptum, jafnvel þó upp kunni að koma mistök. Tryggir viðskiptavinir eru því arðsömustu viðskiptavinir fyrirtækja og það er til mikils að vinna að auka tryggð sérhvers viðskiptavinar og að auka fjölda þeirra tryggu.

Á málstofunni verður fjallað um fyrirhugaðar rannsóknir á tryggð viðskiptavina á íslenskum markaði. Hugmyndafræðin á bak við rannsóknirnar verður kynnt og rætt um þá aðferðafræði sem ætlunin er að beita.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is