Háskóli Íslands

Vormisseri 2012

9. maí 2012: Stefnumiðuð stjórnun hugverkaeigna nýskapandi fyrirtækja: Vernd og hagnýting

Kristín Atladóttir er doktorsnemi við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands

Segja má að hugverkaréttur sé gjaldmiðill í viðskipum með óhlutbundnar eignir en um 5% af heimsviðskiptum felast í leyfisveitingum (e. licensing) á einkaleyfum og höfundarétti. Í Bretlandi hafa óhlutbundnar fjárfestingar fyrirtækja ríflega tvöfaldast frá árinu 1990 og er nú um fjórðungi meiri en hlutbundnar fjárfestingar. Því er haldið fram að langtímahagvöxtur í Bretlandi velti  á nýsköpun í þekkingargeiranum en stýring hugverkaréttinda er ákvarðandi þáttur í velgengni nýskapandi fyrirtækja. Stefnumiðuð stjórnun hugverkaeigna, sem felst annars vegar í að tryggja fyrirtækjum og nýsköpun þeirra vernd og hins vegar í markvissri hagnýtingu slíkra eigna, er orðið brýnt viðfangsefni í rekstri þekkingarfyrirtækja, háskóla og hinna skapandi greina. Á málstofunni verður gefið yfirlit yfir helstu viðfangsefni slíkrar stjórnunar og fjallað um mikilvægi þess að smærri fyrirtæki og frumkvöðlar geti öðlast þekkingu á þessum málum.

 

2. maí 2012: Huglæg líkön (Mental modeling)

Ingi Rúnar Eðvarðsson er prófessor við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands

Markmið málstofunnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi að kynna huglæg líkön (mental modelling) sem rannsóknartæki. Aðferðin er eigindleg og snýst um að kortleggja hugsanaferli einstaklinga og hvernig þeir skynja raunveruleikann. Í öðru lagi var markmiðið að kynna niðurstöður rannsóknar á áhættu í sjávarútvegi sem framkvæmd var á árunum 2006-2009. Sérstakur viðtalsrammi var hannaður og óstöðluð viðtöl voru tekin við smábáta- og úthafssjómenn, fulltrúa hagsmunasamtaka, neytendur, sérfræðinga og embættismenn í ráðuneytum. Helstu niðurstöður eru þær að flestir telja að mesta áhættan í sjávarútvegi tengist fiskveiðistjórnunarkerfinu og stjórnmálum. Efnahagslegir þættir eru einnig taldir áhættuþáttur, en þættir sem eru á valdi aðila í sjávarútvegi, eins og öryggi á sjó, umgengni um auðlindina og annað, eru léttvægir fundnir. Þá er nokkur munur á milli hópa hvaða áhætta er tilgreind og hversu alvarleg hún er talin vera.

 

18. apríl 2012: Nýsköpunarmenning og nýsköpunarandi: Áhrif á hug- myndastjórnun og nýhugsun

Gunnar Óskarsson er aðjúnkt við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands

Á málstofunni var fjallað um fyrsta hluta rannsóknar um áhrif nýsköpunarmenningar og andrúmslofts til nýsköpunar á árangur hugmyndastjórnunar og nýhugsun. Megin markmið rannsóknarinnar er að greina hvaða þættir fyrirtækjamenningar og andrúmslofts til nýsköpunar eru líklegastir til að stuðla að aukinni virkni starfsmanna og stjórnenda í að miðla hugmyndum til nýsköpunar með markvissum hætti. Í rannsókninni verður lögð áhersla á að greina hvaða þættir fyrirtækjamenningar hafa áhrif á nýhugsun og hvert samhengið er á milli nýsköpunarmenningar og andrúmslofts til nýsköpunar og virkni starfsmanna í að miðla upplýsingum um hugmyndir og kalla fram umræður um þær. Kynntar voru niðurstöður greiningar á nýsköpunarmenningu og nýhugsun og fjallað um drög að frekari rannsóknum á viðfangsefninu.

 

11. apríl 2012: Jarðýtuhagkerfið

Örn Daníel Jónsson er prófessor við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands
 
Málstofan var hluti rannsóknar um atvinnuþróun á Íslandi síðastliðna þrjá áratugi. Fræðilegi hlutinn byggir á þremur hefðum sem fjalla um tengsl framþróunar og nýsköpunar. Vinnuheiti verkefnisins eru eftirfarandi; Auðsdrifin atvinnustefna, íslenska stjórnstöðin í City og Grænt ef það kostar ekki of mikið. Auðlindadrifin atvinnustefna sem nú verður fjallað um er greining sem byggir að hluta til á hugtakinu ‘auðlindadrifið’ sem M. Porter kynnti í bók sinni, Competetive Advantage of Nations. Íslenska stjórnstöðin í City er athugun á því hvernig og hvers vegna íslenska þjóðhagkerfið gat vaxið þrjátíu og fimm til fjörtíufalt á alþjóðavettvangi, stjórnað frá Kauphöllinni í Lundúnum undir íslenskum eða norrænum formekjum en byggði í reynd að langmestu leiti á skuldsettum yfirtökum. Grænt ef það kostar ekki of mikið vísar til þeirrar vaxandi spennu sem hefur myndast á milli eiginlegra framkvæmda og pólitískra yfirlýsinga um græna hagkerfið. Þar er fjallað um þau fjölþættu tækifæri sem myndast ef fyrirætlunin er tekin alvarlega.

28. mars 2012: Hvaða hæfni telja markaðsstjórar á Íslandi mikilvæga í starfi sínu?

Friðrik Eysteinsson er aðjúnkt við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands
 
Rannsóknir hafa sýnt að það er fyrst og fremst þekking og færni einstakra starfsmanna sem hefur jákvæð tengsl við markaðslega færni fyrirtækja en hún hefur aftur jákvæðari tengsl við árangur en bæði færni á sviði R&Þ og rekstrar.

Rannsóknir meðal markaðsstjóra gefa síðan til kynna að mikilvægasta hæfnin í þeirra starfi sé annars vegar tengd færni þeirra sem stjórnenda og hins vegar markaðsfræðileg þekking þeirra og leikni sem markaðsstjóra.

Rannsókn Friðriks gekk út á að kanna hvaða hæfni markaðsstjórar (hvort sem þeir bera þann formlega titil eða ekki) í litlum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum á Íslandi telja mikilvæga í starfi sínu. Hann mun greina frá niðurstöðum rannsóknarinnar og setja þær í bæði fræðilegt og hagnýtt samhengi. Að lokum mun Friðrik velta upp spurningum sem tengjast hæfniviðmiðum, námi og kennslu í markaðsfræði í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

 

14. mars 2012: Menningargreind og aðlögun norrænna úsendra starfsmanna í Bandaríkjunum

Svala Guðmundsdóttir er aðjúnkt við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands
 
Á málstofunni var gerð grein fyrir rannsókn sem framkvæmd var meðal norrænna útsendra starfsmanna í Bandaríkjunum árið 2011. Fjallað var um þann þátt rannsóknarinnar sem snýr að sambandi menningargreindar (e. Cultural Intelligence) og félagslegrar aðlögunar (e. Sociocultural Adjustment). Einnig var fjallað um fræðilegt gildi rannsóknarinnar og hvaða þýðingu niðurstöður hennar geta haft fyrir fyrirtæki og stofnanir varðandi þjálfun útsendra starfsmanna.

 

7. mars 2012: Gildi fjármála

Gylfi Magnússon er dósent við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands

Um er að ræða þríþætta rannsókn sem öll snýr að því að greina hreina verðmætasköpun fjármálageirans. Fyrsti þátturinn snýst að því að greina takmörk virðis þess fyrir hagkerfið að fjármálakerfið skapar og dýpkar markaði fyrir peningalegar eignir og þar með m.a. áhættu. Annar þátturinn snýst að því að greina rentusókn í fjármálakerfinu og sérstaklega að hvaða marki starfsemi fjármálafyrirtækja snýst um að sækja rentu fremur en að skapa hana. Þriðji þátturinn snýst um áhrif verðsveiflna á fjármálamörkuðum á raunhagkerfið og sérstaklega áhrif þess að tefja verðlækkun í kjölfar eignaverðsbólu.

 

29. febrúar 2012: Upptaka upplýsingakerfa: Áhrifaþættir og fyrirstöður

Gunnar Óskarsson er aðjúnkt við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands

Mikill vöxtur í notkun upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækja og stofnana hefur leitt til þess að verulegur hluti, jafnvel um 50% af allri nýfjárfestingu fer í upplýsingakerfi. Hætt er við að þau fyrirtæki sem ekki taka í notkunupplýsingakerfi sem þeim standa til boða til að hagræða, bæta þjónustu og stjórnun nógu tímanlega, dragist aftur úr í samkeppninni og gætu jafnvel í sumum tilfellum þurft að leggja niður starfsemina. Það er því ekki lengur valkostur að nýta upplýsingakerfi til að leysa ólíkar þarfir fyrirtækisins, heldur er það nauðsyn. Til að vel til takist, þurfa fjölmörg atriði að koma til. Í þessu erindi verður fyrst og fremst  fjallað um þá þætti sem hafa áhrif á atferli notenda til að taka ný upplýsingakerfi í notkun. 

 

15. febrúar 2012: Rannsóknarverkefni um þróun klasa á Íslandi.

Runólfur Smári Steinþórsson er prófessor við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands.

Í tengslum við námskeiðið Samkeppnishæfni hefur innan Rannsóknarmiðstöðvar stefnu og samkeppnihæfni verið sett af stað rannsóknarverkefni sem miðar að því að kortleggja það klasaþróunarstarf sem unnið hefur verið að hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Einn mikilvægur þáttur í klasaþróunarstarfinu hefur verið framlag iðnaðarráðuneytisins til klasaþróunar úti á landsbyggðinni gegnum vaxtarsamninga. Á rannsóknarmálstofunni verður greint frá því sem fyrir liggur um þessi verkefni og skipulag þeirra. Á undanförnum vikum hefur kastljósinu í verkefninu verið beint að vaxtarsamningum á Suðurlandi og mun umfjöllunin á málstofunni taka mið af því.

 

8. febrúar 2012: Traust og fyrirtækjarekstur

Snjólfur Ólafsson er prófessor við Viðskiptafræðideil Háskóla Íslands.

Markmiðið með málstofunnu er að draga upp einhvers konar heildarmynd af því hvernig traust komi við sögu í fyrirtækjarekstri, en unnið er að Working Paper um efnið. Á málstofunni verða stutt bráðabirgðasvör gefin við eftirfarandi spurningum, með áherslu á fyrirtækjarekstur: Hvað er traust? Hvernig er traust mælt eða metið? Hvað hefur áhrif á traust? Hvers vegna og hvernig er traust mikilvægt í fyrirtækjarekstri?

Að hluta til tengist málstofan doktorsnámi Linjie Chou, en kjarninn í hans rannsókn er að skortur á trausti er eitt af stóru vandamálum norrænna fyrirtækja sem hefja rekstur í Kína. Svolítið verður rætt um traust í ólíkum löndum og minnst á bókina Hugarfar og hagvöxtur eftir Stefán Ólafsson, víddir Hofstede og hugtakið guanxi. Góður tími verður fyrir athugasemdir, spurningar og umræður á málstofunni.

 

25. janúar 2012: Hvaða áhrif hafa ráðherrar á mótun upplýsingastefnu Stjórnarráðs Íslands?

Katrín Pálsdóttir er doktorsnemi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Stjórnvöld á Íslandi hafa það að yfirlýstu markmiði að beita sér fyrir opinni stjórnsýslu og auknu gagnsæi. Markmið rannsóknarinnar er að greina hvernig upplýsingamiðlun í Stjórnarráði Íslands er háttað og hvort og þá hvernig ráðherrar hafa áhrif á hana. Niðurstöður rannsóknarinnar gætu lagt til þekkingu og auðveldað vinnu við að þróa stefnu í  upplýsingamiðlun í Stjórnarráði Íslands sem auðveldar stjórnvöldum að ná markmiðum sínum  um aukið gagnsæi  og opnari stjórnsýslu. Notuð er eigindleg rannsóknaraðferð og tekin ítarleg viðtöl við starfsmenn í Stjórnarráði Íslands og stjórnmálamenn. Fyrirbærafræðileg aðferð er notuð við greiningu.

 

18. janúar 2012: Mælitæki fyrir fjármálahvatvísi?

Kári Kristinsson er lektor við viðskipafræðideild Háskóla Íslands

Á málstofunni var fjallað um þróun mælitækis fyrir fjármálahvatvísi. Eftir forprófun og atriðagreiningu var tuttugu atriða listi lagður fyrir 216 nema í viðskiptafræði. Þar sem niðurstöður þáttagreiningar voru ekki skýrar og bæði Kaiser viðmiðin og skriðupróf bentu til fleiri en eins þáttar var notast við samhliða greiningu. Niðurstöður samhliða greiningar bentu til eins þáttar sem skýrir um fjörtíu prósent breytileikans.  Ræddar voru tillögur til úrbóta sem meðal annars fela í sér könnun á ytra réttmæti og notkun mælitækisins til frekari rannsóknar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is