Rannsóknarmiðstöð stefnu og samkeppnishæfni

Rannsóknamiðstöð stefnu og samkeppnishæfni (Center for Strategy and Competitiveness - CSC) er vísindaleg rannsóknastofa og fræðasamfélag á sviði stefnu og samkeppnishæfni sem starfar innan Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands (University of Iceland School of Business). 

Rannsóknamiðstöðin er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á sviði stefnumiðaðrar stjórnunar og samkeppnishæfni í víðum skilningi. 

Hlutverk rannsóknamiðstöðvarinnar er að:

  • Efla rannsóknir á sviði stefnumiðaðrar stjórnunar og samkeppnishæfni í sterkum tengslum við atvinnulífið og samfélagið og kynna þær,
  • Vera bakland kennslu í stefnumiðaðri stjórnun og samkeppnishæfni og vera umgjörð fyrir þjálfun meistara- og doktorsnema í rannsóknum á sviðinu,
  • Byggja upp tengsl og efla samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði stefnu og samkeppnishæfni,
  • Gangast fyrir atburðum, s.s. málstofum og ráðstefnum, sem varða stefnu og samkeppnishæfni.
  • Vera rammi utan um samfélag þeirra sem vilja taka höndum saman um rannsóknir, fræðastarf og þjónustuverkefni á sviði stefnu og samkeppnishæfni.
Image
""

Forsvarsmaður

Mynd af Runólfur S Steinþórsson Runólfur S Steinþórsson Prófessor 5254557 rsmari [hjá] hi.is

Ráðgjafarráð rannsóknarmiðstöðvarinnar skipa:

Innan Rannsóknarmiðstöðvar stefnu og samkeppnishæfni hafa farið fram rannsóknir á klasastarfi allt frá því kennsla hófst í námskeiðinu Samkeppnishæfni við Viðskiptafræðideild árið 2007 á grundvelli alþjóðlegs samstarfs undir forystu Stofnunar Michaels E. Porters við Harvard Business School. Síðan þá hafa nemendur unnið stór verkefni á hverju ári og sumir þeirra hafa skrifað meistararitgerðir um efnið. Dæmi um rannsóknir á klasastarfi af þessu tagi má sjá í grein í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál árið 2017 eftir Freyju Gunnlaugsdóttur og Runólf Smára Steinþórsson: Einkenni og áskoranir tónlistarklasa á Íslandi (https://efnahagsmal.is/index.php/efnahagsmal/article/view/a.2017.14.2.2). 

Dæmi um aðrar klasarannsóknir er grein í Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism árið 2018 eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur og Runólf Smára Steinþórsson: Development of micro-clusters in tourism: a case of equestrian tourism in northwest Iceland (DOI: https://doi.org/10.1080/15022250.2018.1497286). 

Varðandi klasarannsóknir á Íslandi þá var Rannsóknarmiðstöð um stefnu og samkeppnishæfni um skeið í miklu samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Klasasetur Íslands. Dæmi um ritverk frá þeim tíma er bókin Klasar – bók um klasa: Safn greina eftir Runólf Smára Steinþórsson prófessor við Háskóla Íslands, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands gaf út.

Rannsóknarmiðstöð stefnu og samkeppnishæfni er einnig í beinu samstarfi við helstu klasa á Íslandi og skoða þátt þeirra og hlutverk í vistkerfi nýsköpunar á Íslandi. Nýjasta rannsóknin sem unnið er að er alþjóðavæðing íslenska sjávarklasans. Rannsakendur í þeirri rannsókn eru Mads Bruun Ingstrup, lektor, University of Southern Denmark, Torben Damgaard, lektor, University of Southern Denmark og Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

INNFORM stendur fyrir Innovative Forms of Organizing. Um er að ræða alþjóðlega rannsókn á þróun í skipulagi fyrirtækja, stefnu þeirra og starfsáherslum sem unnin var frá University of Warwick undir forystu dr. Andrew Pettigrew, sem nú starfar sem prófessor við Said viðskiptaháskólann, sem er innan Háskólans í Oxford. Andrew Pettigrew gaf leyfi fyrir því að rannsóknarsniðið og INNFORM spurningakönnunin yrði notuð hér á landi.

Niðurstöður Innform rannsóknarinnar á Íslandi hafa verið kynntar í tveimur greinum, auk umfjöllunar á Þjóðarspegli. Fyrri greinin birtist í Tímariti stjórnmála og stjórnsýslu haustið 2012: Skipulag íslenskra fyrirtækja 2004 – 2007, eftir Einar Svansson og Runólfur Smári Steinþórsson (Organizational structure in Icelandic companies 2004-2007 | Icelandic Review of Politics & Administration (irpa.is)). Seinni greinin birtist í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál vorið 2018: Skipulag fyrirtækja á Íslandi fyrir og eftir hrun, eftir Runólf Smára Steinþórsson, Önnu Marín Þórarinsdóttur og Einar Svansson (DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2018.15.1.5). 

Umsjónarmenn Innform rannsóknarinnar á Íslandi eru Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Einar Svansson, lektor, við Háskólann á Bifröst.

"Stefna í raun og veru" stendur fyrir ákveðinn samnefnara og tiltekna áherslu í rannsóknum á stjórnun og stefnumótun ("Strategy as Practice") sem hefur rutt sér til rúms í stefnumótunarfræðunum.  Þessi áhersla hefur átt miklu fylgi að fagna í Evrópu og á Norðurlöndunum. 

Rannsóknarverkefnið "stefna í raun og veru" miðar að því að gera fjölbreyttar raunrannsóknir á stjórnunarháttum, skipulagi og stefnumiðaðri stjórnun fyrirtækja og stofnana hér á Íslandi. Jafnframt er ætlunin að vinna úr raunrannsóknunum framlag til fræðanna um stefnumiðaða stjórnun. Með rannsóknarverkefninu er einnig ætlunin að taka virkan þátt í því alþjóðlega fræðasamfélagi sem er til staðar á sviði stefnumiðaðrar stjórnunar.

Sem dæmi um rannsókn og ritverk sem tengist þessari áherslu í rannsóknum má benda á greinina: Stefnu í reynd í litlu íslensku hátæknifyrirtæki, eftir Runólf Smára Steinþórsson og Söndru Margréti Sigurjónsdóttur (DOI: https://doi.org/10.24122/tve.a.2015.12.1.4).

Umsjón með rannsóknarverkefninu „Stefna í raun og veru“ hefur Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor